Kofabrölt…

…þessi mynd hérna er síðan 2007 þegar að við keyptum húsið okkar, og eins og þið sjáið kannski í vinstra horninu þá er gamall grænn kofi sem var á lóðinni. Við vorum alltaf ákveðin í að nota hann, en vorum alls ekki sátt við staðsetninguna. Því var bara eitt í stöðunni…

…við tókum kofann í sundur, spítu fyrir spítu og merktum þær allar. Svo var steypt fyrir honum á nýjum stað í garðinum…

…kominn á “sinn” stað og svo er magnað að sjá hvað gróðurinn hefur vaxið í garðinum, maður gerði sér alls ekki grein fyrir því fyrr en maður horfði á myndirnar hlið við hlið…

…svo var kofinn málaður og gerðar litlar breytingar á honum, hurð og gluggahlerar og annað smávægilegt. Þið getið skoðað þetta allt nánar með því að smella hér!

…það var svo þegar að krakkarnir voru litlir að kofinn var tekin í almenna notkun sem “dúkkukofi”. En þarna var sérlega gaman að leika sér löngum stundum…

…endalaus gleði og allt eitthvað svona pastel og krúttað, fæ alveg mjúkt í hjartað að horfa á þessar myndir…

Smella hér til að skoða kofa-pósta!

…en svo líður tíminn og trén stækka, og börnin auðvitað líka. Þau eru 18 og 14 ára í dag og hafa lítinn áhuga á kofavist, og sonurinn verandi orðinn 185cm þarf að brjóta sig saman til að komast þarna inn 🙂
En þá er bara að finna kofanum nýjan tilgang sem hentar okkur í dag…

…eins og þessar 100% óritskoðuðu myndir bera með sér, þá var kofinn orðinn bara almenn draslarageymsla. Þarna eru alls konar aukahlutir fyrir garðinn, luktir og slíkt ásamt leyfum frá fornri “frægð” – restar frá dúkkukofadögunum…

…ég notaði þá einn góðviðrisdag og tæmdi kofann af öllu dótinu sem þarna er og fór yfir það. Flokkaði, henti/gaf/og endurnýtti það sem hægt var…

…eins og sést aðeins þá þurfti að fara yfir veggina og gólfið, og við spreyjuðum bara með Rodalon-spreyji og burstuðum svo vel. Svo var bara spreyjað með vatni og þetta leit betur út á eftir. Gólfið var nefnilega málað “illa” viljandi þegar það var málað blátt, svona vintage look á því…

…þið sjáið aðeins muninn á þessum myndum á fyrir og eftir Rodalon-spreyjun…

…síðan var farið í Bauhaus og þar fann ég hillu sem var 120cm og 180cm á hæð, en við notuðum ekki allar hillurnar. Ástæðan fyrir að hún stendur á miðjum vegginum er til þess að hafa pláss til hliðanna fyrir hitt og þetta smálegt. Hillan sjálf er úr áli og svo er bara að sjá hvernig hún þolir útivistina…

…á endavegginn settum við þrjár festingar fyrir garðverkfæri, sem við fundum líka í Bauhaus. Þannig að við kæmum sem festum verkfærum fyrir…

…mjög einfalt en sérlega nytsamlegt…

…garðverkfæri eru náttúrulega lítið augnayndi, en þið bara vitið ekki hvað það gerir mikið fyrir mig að hafa þetta vel uppsett og þægilegt aðgengi að þessu öllu…

…hillan er síðan að geyma blómapotta og alls konar luktir og annað slíkt sem ég nota til skreytinga úti við…

…aftur ekkert sérstaklega fagurt, en hentugt og auðvelt að skipuleggja sig…

…hvíti bekkurinn var áður úti á palli en hann er kominn með tímabundið hlutverk þarna undir glugganum, fínt fyrir stærri luktir…

…aftur, þetta er ekki endilega fegurðarpóstur – en hann er að breyta miklu fyrir mig og hvernig ég nýti kofann – núna er auðvelt aðgengi að flestu sem tengist garðvinnunni…

…smotterísskraut í hillunni – og önnur pæling hjá mér er að smíða einhvers konar umpottunarborð aftan við skúrinn. Svona felliborð sem auðvelt væri að ganga um…

…ég reyndar splæsti mér í fjögur ný garðáhöld, þar sem þau gömlu voru orðin þreytt og við settum líka upp króka til að hengja þau upp við hurðina. Auðvelt að grípa í þau…

…litli kofinn okkar er í það minnsta orðinn aftur nýtanlegur, þó kannski ekki eins krúttlegur og áður…

Þá segi ég bara góða helgi, ef það rignir, þá er bara að klæða sig betur
– og bara njóta þess að vera til ♥ 

ps. þætti vænt um að þið mynduð smella á like-hnappinn ef þið höfðuð gaman af póstinum og ekki væri nú verra að heyra aðeins frá ykkur!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *