…seinni hluta maí brugðum við undir okkur betri fætinum og heimsóttum Svíþjóð í nokkra daga. Ferðin var jólagjöf til tengdaforeldranna frá börnunum þeirra, en tengdamamma var einmitt í skóla í bæ sem heitir Sigtuna hérna fyrir örfáum árum (áratugum) síðan. Hún hafði svo aldrei snúið aftur og þetta var því langþráður draumur og ótrúlega skemmtileg ferð í ofanálag. Ég ákvað að skipta þessu upp í nokkra pósta vegna þess hversu ótrúlega margar myndirnar eru sem mig langaði að sýna ykkur…
…en bærinn Sigtuna er stutt frá Arlanda flugvelli og er talinn fyrsti bær Svíþjóðar. Um 1000 ára gamall. Bæjarstæðið er við stöðuvatn og þarna er gríðarlega fallegt, eldgamlar litlar byggingar, gamlar rústir og svo margt annað sem gleður augað…
…skilst að gamla ráðhúsið sem stendur á torgi við Stóru Götu sé minnsta ráðhúsið í Svíþjóð…
…allir garðar og hús eru svo falleg og vel um það hirt að það er alveg unun að rölta um og njóta…
…settumst út á litlu kaffihúsi og nutum þess að fá okkur smá í gogginn í þessum dásamlega veðri og hitastigi sem var alveg fullkomið. Kaffihúsið heitir Tant Brun Kaffestuga og er í elsta timburhúsi Sigtuna og er byggingin talin eiga uppruna sinn á 17.öld – sömuleiðis er þetta eitt elsta kaffihús Svíþjóðar…
…og það er einhvern vegin alls staðar fegurð, allt í blóma…
…þarna er líka að finna rústirnar af kirkju sem er frá 12.öld og líka gamall brunnur sem var talinn helgur og notaður til að skíra. Kirkjan er kennd við Olav Haraldsson sem var norskur konungur (1015-1028) sem var tekinn í dýrlingatölu eftir dauða sinn. “Bygging Ólafskirkju hófst líklega á fyrri hluta 12. aldar. Leifarnar hafa verið efni í nokkrum smærri vísindalegum uppgröftum á 2000, þegar rannsakendur hafa verið forvitnir um merkilegan byggingarlist kirkjunnar. Við uppgröftinn kom í ljós að kirkjuleifar nútímans hvíla á eldri byggingu – ef til vill elstu steinkirkju í Svíþjóð“….
…ótrúlega magnað að standa þarna inni, og þið eigið eftir að sjá fleiri kirkjuheimsóknir frá Svíþjóðarferðinni, og alltaf mynda ég loftin – og þarna var það reyndar bara mikilfenglegt að sjá grænar trjákrúnurnar og bláan himinn gægjast yfir veggina…
…þykktin á þessum veggjum var ekkert smáræði…
…og eins og áður sagði, alls staðar svo fallegt um að litast…
…líka að ganga þarna inn í þessa fornu veröld og svo bara kíkt út um dyrnar á nútímann…
…”nýja” kirkjan stendur við hlið gömlu kirkjurústanna og á milli er kirkjugarðurinn…
…hér er svo nýja kirkjan – Maríukirkjan ( Mariakyrkan), mjög falleg og hófst bygging hennar 1247 en lauk ekki fyrr en 1255:
“Maríukirkjan var reist sem klausturkirkja um miðja 13. öld af Dóminíska reglunni. Það er elsta byggingin sem enn er í notkun í Sigtuna og eru veggir, stólpar og þak kirkjunnar að mestu eins og þá.
Mariakyrkan var byggð í umbreytingarstíl milli rómantísks og gotnesks stíls og fékk allt annað útlit en steinkirkjurnar. Stærðin, liturinn á múrsteinunum og birtan í kirkjuherberginu hlýtur að hafa sett guðdómlegan svip á gestina. Hún er fyrsta þekkta múrsteinskirkjan á Mälaren-vatninu. Múrsteinarnir voru gerðir í ofnum norðan við kirkjuna.
Við siðaskiptin um 1530 var klaustrinu lokað og Dóminíkanar hraktir frá Sigtuna. Mariakyrkan varð sóknarkirkja. Hún er eina miðaldakirkjan í Sigtuna sem lifði af siðaskiptin. Skírnarfontarnir tveir eru elstu munirnir í kirkjunni og einnig eru tvær vel hirtar miðaldaaltaristöflur. Krossarnir fjórir voru málaðir á veggina á 13. öld þar sem biskup hafði skvett helgri olíu við vígslu kirkjunnar.”
…og mikið eru þær fallegar kirkjunnar í Svíþjóð, og þessi er engin undantekning…
…við skoðuðum líka kirkjur í Skotlandi þegar við fórum til Edinborgar og það er áberandi að það er minni íburður hérna. Ekki eins mikið af gulli og gersemum, en kannski meira lagt í að skreyta með freskum og öðru slíku…
…altaristaflan eru útskornir dýrlingar, og mjög falleg að skoða…
…ég leitaði víða og fann ekki upplýsingar um hverjir það eru sem eru grafnir inni í kirkjunni, rétt við altarið – en það hefur greinilega verið einhver mikils metinn – horfið líka á þessa dásamlegu list á veggjunum…
…sjáið hvað þetta er mikilfenglegt að sjá, einfaldleikinn og fegurðin…
…það eru svo ótrúlega fallegar freskurnar sem eru málaðar á veggina og skreyta inni í gluggunum…
…veggirnir eru þykkir og miklir…
…útkornir dýrlingar eru mikið notaðir til skreytinga – og hérna á predikunarstól prestins…
…hérna í fjarska sjáið þið krossinn sem hangir í loftinu yfir altarinu…
…mjög áhrifamikið að horfa upp og sjá hann bera við loftið…
…það er merkilegt að til hliðanna eru “vængirnir” mikið meira skreyttir. Þar eru allir veggir og loft skreyttir freskum, auk þess sem gluggarnir eru mósaík listaverk…
…og önnur útskorin altaristafla…
…ég horfði þó nokkuð lengi upp í loftin þarna…
…ég verð að segja að heimsækja kirkjur er eitthvað skemmtilegasta sem ég geri í svona ferðum. Þarna er svo mikil saga og verðmæti í henni, auk þess held ég að fólk þurfi ekki að vera neitt sérstaklega trúað til þess að upplifa samt alls konar tilfinningar þarna inni, svo ótal margt sem hefur gerst…
…við fórum síðan í gamla skólann hennar tengdó, þar sem núna er rekin gistiaðstaða og veitingasalur og það var ótrúlega gaman að skoða þarna með þeim, og hversu gaman þeim að vera þarna…
…ég er mikill Svíþjóðar-aðdáandi eftir þessa stuttu ferð, svo mikið er víst…
…og ég mæli svo sannarlega með heimsókn til Sigtuna, en við fórum þarna tvisvar sinnum á meðan á dvöl okkar stóð…
ps. það þarf enginn að vera hræddur við að smellá á Like-arann, og svo er alltaf frjálst að deila póstunum ef ykkur langar!