…heimili eru svoldið eins og framhaldssaga. Þau eru alltaf að breytast, stundum fara karakterar í burtu og aðrir koma í staðinn, og þetta er bara í stöðugri þróun. Ég sýndi ykkur þegar við breyttum sjónvarpsskápnum okkar og máluðum hann – og í raun var staðan síðast svona þegar þið sáuð þetta…
…hér sjáið þið fyrir og eftir, hlið við hlið – og ef þið viljið skoða allan póstinn þá er bara að smella hér!
…en svo “varð ég fyrir því óhappi” að sleppa eiginmanninum lausum í að versla nýtt sjónvarp og inn kom gripur sem við getum sagt að sé töööööluvert stærri en ég sá fyrir mér. Hann var svo stór að hann tók annan sjónvarpsskápinn. Ó mig auma, þvílíkt vesen að vera ekki með sjónvarpsherbergi stundum!
Þannig að ég er búin að vera að leita að nýjum sjónvarpsskáp logandi ljósi. En ég var ekki alveg viss um hvernig hann ætti að vera, nema bara langur – hann þurfti að vera langur til þess að vega á móti þessu blessaða sjónvarpi okkar. Síðan gerðist það í Góða einn daginn, að ég sá þennan hérna.
Hann var alveg risastór, og svakalega “mikill” eitthvað, en ég varð spennt fyrir honum – eða bara neðri hlutanum. Fór heim, hugsaði smávegis um þetta, og fór aftur daginn eftir – ákveðin í að kaupa hann ef hann væri enn til…
…það var svo þannig að við hjónin burðuðumst með þennan hlunk út í kerru og inn í bílskúr og mánuðir liðu. Svo fór að “vora” (set vor í sviga því ég er í veðurfýlu út í þetta sumar) þá settum við hann út til þess að verka hann…
…það kom reyndar í ljós þegar toppskápurinn var fjarlægður – því ég fékk að kaupa bara neðri skápinn – að toppstykkið var úr tveimur ólíkum viðartegundum. Þetta var eitthvað sem ákváðum að reyna að vinna bara á…
….svo er bara að byrja að pússa og sjá hvað gerist…
…það komu líka í ljós nokkuð djúpar skemmdir sem við settum Woodfiller í, notuðum svona lítinn spaða til þess. Efnið þurfti svo að harðna og svo pússað aftur yfir…
…það voru líka göt sem þurfti að fylla í. Þá notuðum við lítinn viðarkubb, skárum ofan af honum, settum svo Woodfiller-efnið meðfram. Beðið eftir að harðna og svo pússað yfir…
…þarna sjáið þið pússaðann topp og skáp sem á eftir að gera eitthvað við…
…og svo er bara að skella sér í að mála þetta. Það dugar ekki bara að bíða endalaust…
…í þetta notaði ég grófu málningu frá Slippfélaginu sem mér finnst svo gaman að nota. En hún er í raun útisteypumálning og gefur þess vegna svona gróft look. Eins og ég hef áður sagt, þá verður þetta pínu áferð eins og þið gætuð ímyndað ykkur á kistu hjá skipstjóra fyrir 200 árum. En það þarf líka hafa í huga að þetta er ekki málning sem passar öllum húsgögnum. Mér finnst hún fara best með svona grófari stíl og alls ekki á borðplötur eða svæði sem mæðir eitthvað mikið á…
…tadaaaaaa…
…ég setti bara eina umferð á. Svona til þess að geta sett skápinn inn og séð hvernig ég myndi fíla hann á staðnum. Þannig að hann er nú ekki alveg tilbúinn enn blessaður…
…ég vissi að ég ætti eftir að sakna hillunnar minnar, en var samt svo spennt að prufa eitthvað nýtt. Fyrsta planið var samt alltaf að stytta hilluna og setja ofan á skápinn með sjónvarpinu. En þessi langi skápur, hann er of stuttur fyrir það…
…svo þurfti að bæsa toppinn og ég notaði Antík Eik-ar bæsið frá Slippfélaginu í það. En eins og sést þá er enn sjáanlegur muninn á milli viðartegunda og ég þarf að pæla aðeins í því. Það verður reyndar mikið minna sýnilegt þegar að allt dótið er komið ofan á…
…og svo er bara að raða á og nú er ég að hugsa málið – velta þessu fyrir mér!
…ég er mjög hrifin af því hversu mikið þetta opnar stofuna…
…en þá eigum við líka eftir að breyta myndunum aðeins og svona fixa þetta allt saman til…
….það sést á þessari mynd að ég á eftir að mála betur yfir skápinn, og svo þarf að finna lausn fyrir hillurnar. En málningin þolir ekki að það sé verið að draga þunga hluti, eins og vírkörfurnar, og ég vissi að það yrði vandamál…
…eins og þið sjáið líka þá er skápurinn alveg opinn, en ég varð eitthvað svo skotin í að geta raðað í opnar hillurnar. Frekar en að hafa hurðarnar og að þetta myndi fyllast af alls konar dóti sem ég væri að fela. En engar áhyggjur, ég er enn með bæði skúffur og hurðar…
…ísbirnirnir ná líka að kallast á svona…
…en stundum er líka ágætt að setja þetta svona hálfklárað inn og melta þetta. Spá aðeins í þessu og fá tilfinningu fyrir hvort að þetta virki eða ekki. Svo er líka málið að muna að svona getur tekið langan tíma.
Ég keypti skápinn í mars/apríl, við pússuðum toppinn í júní, og núna í ágúst fékk hann málningu. Þannig að, stundum gerast góðir hlutir hægt – og eru ekki alveg tilbúnir enn…
…þá er þetta komið í bili – langur póstur en þið hafið vonandi haft gaman að! Vona að þið eigið yndislega helgi í vændum ♥
P.s ef þú hafðir gaman að póstinum, þá þykir mér sérlega vænt um like-ið þitt!
♥ Eins er frjálst að deila þessu í allar áttir!
1 comment for “Enn eitt DIY…”