Blómstrandi…

…við erum að komast í vorgírinn, ekki satt? Snjórinn á undanhaldi, þó hann geri ítrekaðar tilraunir til endurkomu, og bara allt á uppleið, Hækkandi sól er mál málanna! Eins og ég hef oft talað um þá elska ég fátt eitt meira en að hafa falleg afskorin blóm í vasa, og eins og ég sýndi ykkur í London póstinum í gær – þá ELSKA ég öll þessi blómstrandi tré sem eru alls staðar í löndunum í kringum okkur.

Það var mér því mikið gleðiefni að bregða mér í Samasem á Grensásveginum og sjá blómafegurðina sem til er, förum aðeins yfir það…

…fyrst af öllu eru það elsku bestu hortensíurnar, þær eru í svo miklu uppáhaldi hjá mér. Standa vel og lengi og þorna svo nánast bara óbreyttar…

…ef þið lendið í því að hortensíurnar slappist, þá er best að fylla vaskinn með vatni og skárskera þær upp á nýrr, dunka síðan beint ofan í og láta liggja í kannski 1-2 klst. Setja svo beint í vasa með mikið af vatni og leyfa þeim að jafna sig. Þær verða aftur eins og nýjar…

…annað sem fæst í Samasem er hreindýramosinn, sem er hægt að eiga í mörg mörg ár. Ef hann þorna þá má alltaf bleyta hann upp aftur og nota. Geymist í poka í fjölda ára…

…þið sjáið hér hvað hann gerir ótrúlega mikið þegar hann t.d. settur í glerkassana með dásamlegu hérunum frá Húsgagnahöllinni

…og svo voru til magnoliugreinar, sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér…

…skellti einni í vasann sem ég málaði um daginn (sjá hér) og setti svo nokkur falleg páskaegg, líka frá Húsgagnahöllinni en frá því í fyrra eða hitt í fyrra…

…og svo fóru greinarnar að blómstra – úúúúú hvað þetta er að gleðja mig mikið…

…ég fékk mér tvær greinar og hér er hin. Setti hana í stóran vasa og setti fyrst nokkrar chrysantheum-greinar með…

…en tók þær svo í burtu um leið og greinin tók að blómstra, því að ég varð að njóta þess bara að horfa á blómin…

…vasinn stendur svo í Brostre bakkanum frá Húsgagnahöllinni, svo setti ég mosa í kring og nokkur egg…

…en ég var víst ekki búin – því að það voru líka dásamlegar kirsuberjagreinar sem ég stakk beint í gordjöss hvítan vasa frá Rúmfó

…hversu dásamlegt er þetta. Ef ég væri með svona í garðinum þá væri ég sennilega bara úti í garði að stara allan daginn…

…vona að þið eigið yndislegan dag. Mæli svo sannarlega með svona dásemdargreinum til þess að létta lund og munið, “páskaskraut” það er bara vorskraut – þannig að bara upp með’ða ♥

P.s. Annars langar mig líka til þess að biðja þig, sem þetta lest, að smella á like-takkann ef þú hafðir gaman að póstinum. 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *