Skreytum Hús – 3.þáttaröð – 2.þáttur…

…Þá er komið að örðum þætti í 3.þáttaröðinni. En þættirnir verða 6 rétt eins og í hinum seríunum, og koma inn á Vísir.is og á Stöð2+.

Smella hér til þess að horfa á þátt nr. 1 á Vísir.is
og þátturinn er líka á Stöð 2+!

og eins og alltaf þá mæli ég með að horfa á þáttinn áður en pósturinn er lesinn… 

…í þættinum í dag kynnumst við henni Helgu Dís og hennar dásamlegu börnum, Matthew Davíð og Freyju Dís, en ég fékk hjálparbeiðni um að aðstoða við barnaherbergin þeirra…

…og bara svo það sé alveg á hreinu, þá er krúttið hann Matthew nýji besti vinur minn ♥

…þessi fallega fjölskylda er bara búin að búa í íbúðinni sinni í nokkra mánuði, og hafa verið gífurlega dugleg í framkvæmdum – skipt út parketi, eldhúsi og margt fleira, og voru því ekki búin að ná að gera barnaherbergin eins og stóð til og þá kom ég til sögunnar.

Herbergið hans Matthew var mjög snyrtilegt og fínt, en það átti bara eftir að gera það að hans óskum og þörfum. Herbergið hennar Freyju var hins vegar notað sem hálfgerð geymsla og vinnustöð á meðan á framkvæmdum stóð – enda svaf hún enn í hjónaherberginu…

…fyrsta pælingin var að útbúa herbergi sem væri svona speglun af hvort öðru, bara í ólíkum litum og með ólíkum áherslum – og þetta hér eru moodboard-in sem ég sýndi Helgu Dís þegar við hittumst fyrst…

…en svo þegar ég fór að skoða nánar Pinterest-ið hennar, þá tók ég eftir að panilveggir/skrautlistaveggir voru mjög áberandi og við ákváðum að gera slíkan inni hjá Matthew, ef hægt væri. Þið getið skoðað alls konar hugmyndir með því að setja: kids accent wall panel inn í google t.d…

…en eins og svo oft áður, þá var fyrsta versið að finna réttu litina. Inn til Matthew stakk ég upp á Dásamlegum og Flóru frá Slippfélaginu, og leyfa honum bara að velja:

MOODBOARD fyrir Matthew

…byrjum á herberginu hans Matthew – þar sem liturinn Dásamlegur varð fyrir valinu og þar sem risaverkefnið okkar, panelveggurinn, gekk næstum frá mér 😉 eða svona þannig sko. Það er í raun ekki erfitt að gera svona vegg með góðri hjálp – en þetta tekur tíma. Það er öruggt!

Þannig að veggurinn er alveg sér kapituli

Ég hélt í alvöru að við næðum ekki að klára þetta, ég var komin alveg á ystu nöf taugalega séð. Ég hefði nefnilega rætt við hann Sigga handyman og hann sagði að þetta væri bara ekkert mál – en tæki smá tíma og væri smá svona dúll við þetta. Flott helgarverkefni. Ok, flott helgarverkefni, við vorum með tímann frá kl 16 til ca 22 ef vel væri 🙂

Snillingarnar í Byko komu mér til bjargar og ég sendi myndina á þá og fékk þá til þess að saga niður MDF-efni sem við gætum fest á vegginn. Pælingarnar voru hvort að þyrfti að bora og festa, eða hvort að kímkýtti myndi vera nægjanlegt.

Eftir miklar pælingar komumst við að því að límkýttið væri málið (notuðum málingarteip á meðan það var að þorna) og við lentum reyndar í því að festa fyrst upp vitlaust – það þarf að læra þetta allt, og því þurfti að laga vegginn eftir okkur líka – sjá hvítu skellurnar á veggnum…

…en að lokum var þetta komið upp á vegg og þá var sparslað í samskeytin og svo pússað yfir þar til þetta var allt orðið slétt og flott, og veggurinn lagaður líka…

…og svo þurfti að grunna allar spíturnar þegar þær voru orðnað fastar. Verkefni sem ég var að vinna til rúmlega kl 1 um nóttina, fyrir tökurnar daginn eftir (þið skiljið kannski örvæntingu mína), en elskan hún Helga Dís tók svo við að morgni og málaði allan vegginn morguninn eftir og þetta gekk upp…

…ég mætti með allt mitt hafurtask…

…og eftir að Helga Dís var búin að mála vegginn með Dásamlegum, þá varð hann – Dásamlegur…

…ég get ekki sagt ykkur hvað ég var ótrúlega ánægð með útkomuna eftir alla þessa vinnu. Þetta er í raun svo einfalt en gerir svo ótrúlega mikið fyrir herbergið…

…veggurinn er alveg hetjustykkið þarna inni…

…það varð bara eins og herbergið stækkaði allt við þetta! Gardínurnar eru líka dökkbláar sem þýðir að þær blokka vel á birtuna sem er gott í barnaherbergi á íslensku sumri, og í stað þess að vera með eiginlegt rúmteppi þá erum við bara með mjúkt flísteppi…

…við fengum þessa fallegu kommóðu í Dorma, og fæturnir gera hana svo létta og fallega þarna inn.

Svo er fallegt að tengja saman svarta litinn í ljósinu og skúffunum/fótunum…

…við vildum gera einfalda leikaðstöðu fyrir Matthew þar sem hann gæti bæði setið og staðið við leik. Mér datt í hug að kaupa bara tvö ódýr náttborð í Rúmfó og setja borðplötu úr Byko á milli þeirra.

Mynd 1

Þetta þýddi að hann gat setið á fílnum og leikið sér við borðið en það er líka pláss í skúffunum fyrir alls konar skipulag…

…hillurnar eru úr Rúmfó og þetta eru tveir hilluberar með þremur hillum hver, en með því að nota bara tvær hillur og hafa rétt bil á milli þá búum við til “þriðju” hilluna á milli….

Mynd 1

…þannig erum við komin með leikpláss sem er líka fallegt og snyrtilegt. Motta finnst mér líka möst í barnaherbergin þar sem þau leika svo mikið á gólfinu…

…og eins og alltaf þá nota ég bara leikföngin til þess að skreyta inni í barnaherberginu…

…fallega svarta ljósið úr Rúmfó kemur vel út þarna inni og varpar fallegum skuggum í kringum sig…

Mynd 1

…svo langaði mig að gera smá bókasafn fyrir Matthew, en hann er tvítyngdur og er með enskar og íslenskar bækur sem er gott að hafa aðskildar, og þegar ég fann þessar grindur í Byko þá fannst mér þetta alveg pörfekt fyrir litla lestrasnillinginn…

…þetta gefur líka svo skemmtilega liti á vegginn…

…svo er þetta líka snilldar nýting á plássi sem annars myndi ekki vera með mikið annað en bara myndir í ramma eða slíkt…

…og já, þessi kona er svona ánægð með það að veggurinn góði varð að veruleika!

MOODBOARD fyrir Freyju Dís

…en í herbergi Freyju Dísar stóð valið í mjúkum bleikum tónum, eftir óskum móðurinnar og því voru það Lekker og Ósk frá Slippfélaginu sem valið var á milli:

…herbergið hennar Freyju Dísar varð svo allt svona dömulegt og fallegt. Liturinn Lekker á þar stóran hlut að máli auðvitað, en hann er einstaklega þægilegur og “mjúkur” það er bara orðið. Hann er svona bleikur með svona ferkjulituðum, brúnum undirtóni – sem hljómar eflaust skringilega, en virkar alveg fullkomlega…

…þar sem rúmið hennar Freyju var hvítt, og hillan hennar líka, þá langaði okkur í fallega kommóðu fyrir fatnað og slíkt.

Þessi úr Dorma, sem er sama og fór í herbergi Matthew, nema með viðarfótum og skúffum var alveg fullkomin hingað inn. Viðurinn kallaðist á við vegghillurnar sem við settum upp og síðan viðarfæturnar á stólnum og á hillunni…

…spegillinn var síðan alveg yndislegur þarna inn, smá gyllt og bling í honum, en hann er líka staðsettur á móti glugga og endurkastar því svo fallega birtunni þarna inni.

Spegillinn, vasinn og blómið eru frá Rúmfó…

…við ákváðum að nota áfram hilluna sem var inni í herberginu hans Matthew nema Helga Dís keypti lappir og körfur í hana. Snilldar ákvörðun sem gerði þetta nánast bara að nýrri mublu…

…það breytir líka svo miklu að fá fætur og lyfta húsgögnum upp af gólfinu, það léttir svo á öllu…

…þið sjáið hér vel hvað það munar miklu að vera með fæturnar, og líka hversu líkar fæturnar á þessum tveimur mublum eru…

….stóllinn úr Rúmfó var síðan alveg fullkominn til þess að eiga notalegar stundir með krílinu…

Mynd 1

…og enn betra fyrir mömmuna að geta sett lappirnar upp á meðan – og þá er ísbjörninn alveg að standa sig í því…

…ísbjörnin nýtist svo áfram þegar hún stækkar og hjólavagninn er snilld fyrir bleyjurnar og allt sem þeim tengist á meðan hún er lítil, svo bara fyrir bækur eða annað slíkt þegar fram líða stundir…

…mjúk mottan er síðan dásamleg fyrir kríli sem er enn að liggja á gólfinu og leika sér…

…svo verð ég að viðurkenna að þetta Bambasængurver var alveg að fara með mig í krúttdeildinni…

…þetta dásamlega ljós úr Byko var síðan alveg það sem þurfti þarna inn.

Svo fínlegt og fallegt, en jafnframt dásamlegir skuggar af því…

…gylltu hringirnir eru líka frá Byko og sérstaklega skemmtilegir til þess að hengja yfir rúmið, og svo má bara skreyta þá að vild…

…vegghillurnar eru líka svo fallegar á veggina þarna inni…

Mynd 1

…látlausar en bjóða upp á að stilla svo fallega upp í þær…

…rétt eins og herbergi stóra bróður þá vorum við með þykkar ytri gardínur í dásamlegum bleikum lit sem tónaði fullkomlega við litinn á veggjunum…

…eins og ég hef svo oft sagt áður, þá eru barnaherbergi held ég bara uppáhalds rýmin mín. Það má nefnilega leika sér svo mikið í þeim og með þau. En mér finnst alltaf svo mikilvægt að þau séu líka “róleg” að vissu marki. Því þau eru ekki bara ramminn utan um leikina hjá barninu, heldur eru þau líka svæðið þar sem þau eig að sofa og fara í ró, þannig að við þurfum að hugsa um báðar hliðar. Það skiptir nefnilega miklu máli.

Hugsið um hvað barnið þarf, leikpláss, geymslupláss, svefnpláss og finnið þessu öllu “sinn stað” og það auðveldar allt í framtíðinni ♥

Hér sjáið þið síðan fyrir og eftir myndirnar, svona hlið við hlið…

Enn og aftur er ég endalaust þakklát fyrir að fá að taka þátt í lífi yndislegs fólks, en þau hjónin Helga Dís og Shaun voru alveg frábær og börnin þeirra bara dásamleg. Þannig að ég þakka bara fyrir mig – enn og aftur ♥♥♥

2 comments for “Skreytum Hús – 3.þáttaröð – 2.þáttur…

  1. Sólrún Perla
    03.11.2021 at 11:54

    HVar kaupir maður svona stakar lappir undir hirslur? 🙂

    • Soffia - Skreytum Hús...
      04.11.2021 at 03:45

      Fékkst í Ikea, og líka körfurnar!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *