…stundum eru skyndihugmyndir bestu hugmyndirnar, og með engum fyrirvara seinasta sumar var ákveðið að skella sér á Höfn í Hornafirði og vera og njóta í nokkra daga…
…ég var orðin nokk viss um að það væri búið að lengja leiðina, en svo var víst ekki, en það er líka ekki hægt að kvarta yfir útsýninu sem mætir manni á þessari leið – endalaus fegurð…
…talandi um endalausa fegurð – sjá þessi…
…þið vitið ekki hvað ég er búin að hlægja mikið að þessari mynd – hann Moli er eins og teiknimyndahundur sem er að plana eitthvað svakalegt…
…við vorum svo heppin að fá gistingu hjá Aurora Cabins, sem eru litlir kofar rétt utan við bæin…
…húsin eru ekki stór, en þau voru alveg fullkomin fyrir okkur fimm sem vorum að ferðast saman, en við vorum með eina vinkonu dótturinnar með í för…
…mér fannst geggjað að geta sofið í húsi í góðu rúmi og það gerði ferðina mikið þægilegri…
…rétt fyrir ofan kofana eru þessir stólar og þar er svo sannarlega hægt að sitja og njóta dásamlegs útsýnis…
…nú annað sem við lögðum mikinn metnað í var að borða góðan mat, ommnommnomm…
…við fórum líka Gróðarstöðina í Dilksnesi og skoðuðum alveg hreint dásamleg sumarblóm…
…ég hefði helst viljað eitt af öllu og taka með heim…
…eitt af því sem gerði þessa ferð svo yndislega var að ein af mínum bestu vinkonum er ættuð frá Höfn og við vorum boðin velkomin með pompi og prakt á æskuheimilið, þar sem foreldrar hennar tóku á móti okkur – ja, bara eins og þau ættu okkur…
…garðurinn er hrein undraveröld, svo mikið af fallegum gróðri…
…þarna sá ég stæðsta Eini sem ég hef séð, skipaði bóndanum og syninum við hlið hans til samanburðar…
…eðalhjónin á heimilinum hafa líka safnað ótrúlega fallegum steinum á ferðum sínum um landið og sett í beðin, og bara að horfa á beðin er eins og ævintýri…
…elska svona natni við nærumhverfið sitt…
…síðan var farið í skoðunarferð og hvað sáum við, nú auðvitað hreindýr! Það varð mikið uppnám í bílnum og spenningur, auk þess sem hreindýralagið úr Frozen var sungið stöðugt…
…svo er það Eystrahornið, þetta magnaða fjall og allt þetta svæði…
…því verður illa lýst með orðum hversu fallegt þetta er…
…já prikið kom í bílinn, hvað er málið með stráka og prik 🙂
…sunnan Vestrahorns er Stokksnes og þar rétt hjá, við fjallsræturnar, eyðibýlið Horn. Þar er líka víkingaþorp, sem er hluti af leikmynd sem var gerð fyrir kvikmynd er að ég held ekki enn orðin að veruleika – getið smellt hér til að horfa!
Þegar við komum var hópur af hestum í sumarbeit á svæðinu sem var heldur en ekki gleðiefni fyrir ungu hestakonuna okkar, já og bara okkur hin líka…
…þar sem þetta var brúðkaupsafmælisdagur okkar hjóna, þá smellti dótturin af þessari hérna – en við eigum mjög svipaða mynd sem var tekin fyrir 28 árum síðan…
…nú og þar sem við vorum að fagna, þá skelltum við okkur á Pakkhúsið um kvöldið og það er ekki annað hægt en að mæla 100% með því…
…svo um kvöldið, svona fullkomið sumarkvöld – stilla og sólarlag þannig að maður greip andann á lofti…
…dalalæðan eftir hitann um daginn – nú er ég að reyna að muna, en það er eitthvað annað orð notað yfir hana á Höfn, megið setja í komment undir ef þið munið það fyrir mig…
…og um nóttina tók ég þessa, bláklukkan sem einkennir þetta svæði, dalalæðan og fjöllin…
…þetta var svona kvöld sem maður tímir ekki að fara að sofa…
…og þá vakið maður bara aðeins lengur og nýtur þess að vera til…
…endalaus fegurð…
..og svo á leiðinni heim, skyldustoppið í Lóninu, þar sem við fengum töluvert bjartari og fallegi dag en á leiðinni austur…
…yndislegir dagar og ferð – maður getur ekki annað en verið þakklátur fyrir svona stundir ♥
p.s. ef þú vildir vera svo dásamleg/ur að smella á like, svona af því að þú last póstinn og hafðir gaman að, þá yrði ég þér afar þakklát.
Dásamlegt🙂Er alin þarna upp,alltaf fast í hjartanu
Jú þarna eru rætur okkar elsku frænka. Fallegasti staður í heiminum.