…þá er komið að því að fyrsti þátturinn Skreytum Hús… hefur litið ljós inni á Vísir.is og hjá Stöð 2 Maraþon. Þetta verkefni er búið að vera hreint magnað og svo ótrúlega skemmtilegt, að miklu leyti vegna þess hversu heppin ég var með fólkið í kringum mig. Strákarnir hjá Obbosí sáu um að framleiða, leikstýra og taka allt upp og það er búið að vera svo skemmtilegt að vinna með þeim. Þar að auki var ég með svakalega dásamlega þáttakendur. Þannig að ég er hreint og beint mjúk í hjartanu af þakklæti og gleði!
og ég mæli með að horfa á þáttinn áður en pósturinn er lesinn!
…ég kem aldrei til með að geta dásamað það nóg hvað ég var lánsöm með þáttakendur í þessum þáttum mínum. Þetta voru allt saman svo dásamlegar konur sem var svo gaman að vinna með og það gerði hvert og eitt verkefni svo mikið skemmtilegra. Hún Alda er engin undantekning þar en ég fékk að hjálpa henni við að breyta til í barnaherbergjunum, en hún á eins árs stelpu og þiggja ára strák sem áttu falleg herbergi, sem vantaði bara að gera aðeins meira í. Svona að finna ævintýrið sem ætti að vera í hverju barnaherbergi. Þannig að – við tókum bara bæði rýmin…
…þar sem það var stutt síðan þau fluttu inn, og máluðu herbergin, þá fannst okkur ekki þörf á því að endurmála þau. Þið fáið sambærilega liti hjá Slippfélaginu:
Strákaherbergi – Náttúrulegur er mjög svipaður þessum, eða Huggulegur.
Stelpuherbergi – Mæli með að skoða hálfan Kærann, eða Lekkerann.
…annað sem blundaði í Öldu var að ná að pússa niður og lakka bæði skápa og hurðar, því eins og sést þá var eikin farin að gulna ansi hressilega og því tók hún svo mikið til sín. Dregur til sín alla athygli í raun og veru…
…þegar við fórum að ræða um breyingarnar þá var Alda með ákveðnar pælingar um að mála eitthvað spennandi á veggina og eftir að skoða ýmislegt þá voru það þessar hérna tvær hugmyndir sem stóðu upp úr.
Tré í strákaherberginu og regnbogi í herbergi stelpunnar…
…ég mætti svo á staðinn og við klipptum út prufutré og festum á veggina, svona til þess að vera með staðsetningarnar eins og við vildum helst hafa þær. Svo settum við alls konar litaprufur á þær þar til rétta samsetningin fannst. Áður en við tókum niður pappírstrén, þá drógum við lauslega með blýanti eftir útlínum þeirra til þess að geta svo fyllt bara inn í…
Liturinn á trjánum er frá Slippfélaginu og þeir heita – frá vinstri til hægri:
•Svakalegur •Álfagull •Bergmál •Woody Allen •Krydd
…til þess að finna okkur rétta staði með regnboga þá festi Alda risapappír á vegginn sem við drógum línurnar á, svona til þess að finna út hvað við vildum að hann færi hátt og hversu langt ætti að vera á milli lita, svona ca. Við skárum svo með hníf þannig að við gætum dregið með blýanti eftir efstu línu. Svo var var bara verið að fikra sig áfram þar til við vorum sáttar við útkomuna…
…snilldin við þennan er sú að þetta er ekki reglustiku regnbogi, það má alveg vera smá beygur og sveigjur og það gerir hann bara enn fallegri…
Litirnir í regnboganum eru allir frá Slippfélaginu og heita, frá efsta lit að neðsta:
•Haustrós •Kær •TVT J310 •Huggulegur •Dásamlegur
…og þetta breytti líka þvílíkt miklu! Svo fallegt og mikil innspýting af persónuleika í rýmið…
…eftir að við hækkuðum gardínustöngina, þá settum við aftur upp sömu gömlu gardínurnar til þess að litli maðurinn gæti sofið í herberginu sínu og þetta sýnir svo vel hvað það hækkar mikið til lofts að vera með hærri stöng!
Allir saman: Aaaaamen!
Strákaherbergi!
- Fílaskemill – Rúmfatalagerinn
- Leiktjald – Rúmfatalagerinn
- Ljósasería – Rúmfatalagerinn
- Kózý barnastóll – Rúmfatalagerinn
- Dýrasængurver – Rúmfatalagerinn
- Panil vegghillur – Rúmfatalagerinn
- Grænar flauelsgardínur – Rúmfatalagerinn
- Motta – Rúmfatalagerinn
- Beislitaður flöffí púði – Rúmfatalagerinn
- Grænt flöffí teppi – Rúmfatalagerinn
- Burstatré með ljósum – Rúmfatalagerinn
- Lítil burstatré – Rúmfatalagerinn
Stelpuherbergi
- Há hilla – Rúmfatalagerinn
- Lamasængurver – Rúmfatalagerinn
- Blómaspegill – Rúmfatalagerinn
- Ljósar flauelsgardínur – Rúmfatalagerinn
- Skammel – Rúmfatalagerinn
- Blómapúðar – Rúmfatalagerinn
- Smáborð – Rúmfatalagerinn
- Viðarkassi – Rúmfatalagerinn
…þegar við ræddum saman um dótið í strákaherberginu, þá var það ljóst að eftirlætið hans voru plastdýrin sem hann á í massavís. Ég fór því að hugsa um hvernig væri skemmtilegtast að koma þeim fyrir þannig að þau njóti sín og hann njóti þess að leika með þau. Þegar ég sá þessar panilhillur í Rúmfó þá fékk ég strax hugljómun og sá þetta svona líka ljóslifandi fyrir mér!
…ein stæðsta breytingin á rýminum var vinnan sem Alda lagði í við að pússa og lakka skápa og hurðar. Risavaxið verkefni, sem varð þó aðeins smærra og viðráðanlegra þegar hún fór í Leigumarkað Byko og fékk þar vél til þess að pússa niður, með áfastri ryksugu. Þetta er eitthvað sem við megum ekki gleyma að nýta okkur, það eru til alls konar tæki sem geta hjálpað okkur við verkefnin, og það þarf ekkert alltaf að kaupa – stundum er leigan bara snilld til þess að koma okkur á réttan stað!
Hurðar, skápar og gólflistar voru svo lakkaðir með Helmi 30 og Kópal Magna grunn frá Slippfélaginu!
Strákaherbergið kom alveg dásamlega út…
…það er alveg magnað hvað það gerir mikið að mála þessi litlu tré á veggina, og ætti að sýna okkur hvað það gerir mikið að þora bara. Þetta er bara málning og ætti ekki að vera flókið að leika sér stundum smá, sérstaklega í krakkaherbergjum. Þetta voru meira segja bara prufudósir sem við vorum að nota hér…
…tjaldið er líka snilldarhlutur í barnaherbergi. Á meðan hann er lítill á hann þarna huggulegan stað til þess að leika sér á eða skoða bækur, og svo er auðvelt að kippa þessu saman og setja til hliðar. Þá gæti komið þarna stóll eða bara lítið skrifborð með tímanum…
…þessar hillur! Ég er alveg með þær á heilanum svona í barnaherbergið. Þær eru klikkað flottar. Þrjár litlar vegghillur sem hreinlega “fylltu” upp í rýmið og urðu að algjöru ævintýri fyrir lítinn mann sem getur skapað heila ævintýraveröld á hverjum degi…
…sjá bara hvað þetta er skemmtilegt…
…svo er bara að leyfa ímyndunaraflinu að leika lausum taum, grasið og trén og bara hvað sem er…
…svo þegar dýrin hætt að vera efst á vinsældarlistanum þá verður hægt að setja ofurhetjur eða bara hvað sem er þarna. Við endurnotuðum gamlan sjónvarpsskáp sem þau áttu fyrir, en svoleiðis skápar eru oftast í fullkominni hæð fyrir krakkaherbergin. Eins eru mottur á gólf alveg möst, þau eyða svo miklum tíma í að leika á gólfinu…
…yfir í stelpuherbergið, en það sem ég elska við veggmyndirnar í báðum rýmunum er að þær eru ekkert agressífar. Það er nefnilega svo mikilvægt að það sé líka viss ró í barnaherbergjum, því að það fylgir sem mikið af dóti og slíku inn í þessi herbergi og þarna þarf líka að vera ró og þægilegt andrúmsloft…
…gardínurnar eru mjög hlutlausar, en fánalengjan færir þær á næsta svið og gerir þær enn fallegri…
…hillan tekur lítið pláss en dugar vel til þess að geyma leikföng og punt – bara mikilvægt að passa að veggfesta, því stóri bróðir ákvað að prufa að klifra strax og hann sá hana 🙂
…við skiptum úr ferköntuðu borði sem fylgdi með stólunum, fyrir smærra borð og það breytti mjög miklu – það var betra flæði heldur en að vera með öll húsgögnin þarna svona ferköntuð. En þetta er bara lítið hliðarborð og það er svo oft hægt að nýta þau í svona barnaherbergi.
Blómapúðarnir eru svo extra krúttaðir sem aukasæti fyrir litla rassa þegar setið er á gólfinu…
…okkur langaði að finna fallega spegla þarna inn og mér fannst þessir blómaspeglar nógu ævintýralegir til þess að setja í barnaherbergi, sérstaklega þegar ég skellti smá brúnu rafmagnsteipi úr Byko neðan úr hverjum spegli, og úr urðu þessi fallegu blóm. Elska að sjá endurspeglunina á regnboganum…
…ég hef sagt það oft áður og segi aftur, barnaherbergin eru skemmtilegustu rýmin og sérstaklega þegar maður leyfir ímyndunaraflinu að ráða svolítið.
Verum óhrædd við að leika okkur smá með málninguna, þetta þarf ekkert að vera fullkomið og jafnvel enn skemmtilegra að það sé það ekki! Í versta falli þá málum við bara yfir þetta aftur!
Takk elsku Alda og fjölskylda fyrir að leyfa mér að hjálpa ykkur við þetta, fyrir að treysta mér fyrir rýmunum ykkar og vera svona yndisleg ♥
p.s. ef þú vildir vera svo dásamleg/ur að smella á like, svona af því að þú last póstinn og hafðir gaman að, þá yrði ég þér afar þakklát.
1 comment for “Skreytum Hús – 4. þáttur…”