90 ára gömul endurvinnsla?

…ég hef ansi gaman að DIY-a sjálf eitthvað skemmtilegt, þið vitið bara að föndra sjálf. Sérstaklega finnst mér skemmtileg að fara á Nytjamarkaði og finna eitthvað gamalt og gefa því framhaldslíf. Um daginn fann ég þennan kertastjaka úr Ikea, og gamlan tréplatta…

…þar sem að kertastjakinn er mjög stór og massífur, þá fannst mér þetta verða fyrirtaks kökudiskur. Auðvelt væri að spreyja þetta – en í þessu tilfelli fannst mér þetta bara svo fallegt, alveg eins og það er!

…svo þarf bara að líma þetta, en fyrst ætla ég að pússa létt yfir trédiskinn. Varðandi hvaða lím er best að nota, þá fer það alfarið eftir hvaða efni er í hlutunum sem líma á saman. Tré og tré þýðir að notað er trélím, en svo er annað fyrir postulín og svo má áfram telja…

…en mér þykir hann fagur – framhaldslífsdiskurinn góði!

…ég hef áður gert nokkra kökudiska, sem hægt er að skoða með að smella hér, hér, og hér

…eftir að ég sýndi þennan disk á snappinu, þá fékk ég skilaboð frá yndislegri frænku minni. Hún tjáði mér að í hennar fórum væru þrír fætur af gömlum kökudiskum, sem höfðu verið í notkun í bakaríinu hjá afa okkar, en hann var bakarameistari og var með bakarí á Bergstaðastrætinu. Þessir dásamlegu gömlu nytjahlutir eru því í það minnsta 90 ára gamlir höldum við. Elskunni henni frænku minni fannst það vera alveg nauðsynlegt að þessir fallegu fætur kæmu í mínar hendur og hún sagði að það væri sennilegast enginn sem kynni að meta þetta eins vel og ég

…ég var ótrúlega ánægð og þakklát og sótti gripina hið snarsta – og um leið, þá bara var ég viss um að hér væru komnir nýju eftirlætis kertastjakarnir mínir

…svona í alvöru, sjáið bara hversu vel þeir smella inn hérna…

…þeir bera aldurinn vel þessir höfðingjar og fá því að standa algjörlega eins og þeir eru um ókomna tíð…


Ég velti því fyrir mér hvernig þessir kökudiskar hafa litið út upprunalega, en mér dettur helst í hug að það hafi verið einhverskonar diskur sem var smellt yfir, þannig að hann passaði ofan á! Ef einhver á mynd af svona, eða þekkir til þá þætti mér ótrúlega gaman að sjá/heyra.

…velkomnir heim – hann afi hefði nú varla átt von á því að fæturnir á kökudiskunum, yrðu enn í notkun sem skrautmunir 90 árum síðar!

ps. þætti vænt um að þið mynduð smella á like-hnappinn ef þið höfðuð gaman af póstinum og ekki væri nú verra að heyra aðeins frá ykkur – eins má sko deila þessu í allar áttir, það væri bara yndislegt!

3 comments for “90 ára gömul endurvinnsla?

  1. Anonymous
    05.05.2020 at 20:06

    Sæl,…áttu myndir og fróðleik um…sumarhúsgögn og mismunandi trend á pallinn í garðinum…???

    • Soffia - Skreytum Hús...
      06.05.2020 at 01:38

      Sæl – er víst ekki með mikið af slíku. Elti lítið trend þegar það kemur að svona – geri bara það sem mér þykir fallegast 🙂

  2. Guðrún Á. R.
    13.06.2020 at 20:45

    Vá æði að fá þessa fætur, hvaða bakarí var hann með?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *