…enn og aftur og meira til. Það er ekki hægt að neita því ég er að gera það sem ég elska mest, og það sem mér finnst skemmtilegast. Í þetta sinn var ég reyndar að hjálpa þeim sem standa mér næst, og það er nú ekki verra 🙂
Það var sem sé verið að mála í þessu fallega hjónaherbergi, og fjárfesta í þessu dásemdarrúmi sem þarna stendur. Ljósin voru í herberginu áður. En eru, eins og greinilegt er, mjög falleg og því var engin ósk um að skipta þeim út. Ljós í góðu standi, og svo er loftljós í stíl. En, eins og sést líka á myndinni, þá voru veggljósin helst til lág eins sést, sérstaklega þar sem þau eru notuð til lestrar.
…það er gat í vegginn undir ljósinu – og engin góð leið til þess að hækka ljósið án þess að gatið sé mjög sýnilegt. Það er auðvitað hægt að setja plastlok yfir – en það var engin sérstök prýði af því. Þetta er áberandi staður – við hliðina á rúmgaflinum og það er svoldið eins og að skella plástri á eyrnasnepilinn og setja svo í demantslokkana. Virkar ekki alveg…
…en þá fékk ég smá hugljómun. Ég geymi nefnilega ýmislegt, og það er góð ástæða fyrir því. Það kemur nefnilega svo oft að því að maður finnur einmitt rétta staðinn/tilganginn. Það sem flaug inn í kollinn minn í þetta sinn var hurðin sem sést hér að neðan.
Þetta var sjónvarpsskápur sem ég keypti á Nytjamarkaði með það fyrir augum að nota hurðarnar. Skápurinn sjálfur fékk annað hlutverk hjá öðrum en mér, en hurðarnar er ég búin að geyma í sennilega 4-5 ár.
Mér þótti þær svo fallegar, fallegur útskurðurinn og hafði t.d. dottið í hug að taka þær í sundur og hengja upp á hlið, og gera snagabretti úr þeim.
En í þetta sinn átti að nota hurðarnar sem nokkurs konar basis fyrir veggljósin. Gatið og snúran fer í felur á bakvið spýtuna og það sem meira er, ljósin virka stærri og veglegri. Sem hentaði vel þar sem rúmgaflinn var mun stærri en fyrirrennari sinn…
…elskulegur eiginmaðurinn reif fram DeWalt-safnið sitt og hófst handa við að taka hurðarnar í sundur. Ef þið veltið fyrir ykkur ljósa viðinum sem liggur þarna ofan á, þá er þetta spýta af parketinu okkar sem hann notar sem réttskeið. Í sundur fór hurðin, svo voru kantar heflaðir og pússaðir, og allt varð eins og það átti að vera…
…síðan var farið með afsagaðar og verkaðar hurðarnar og þær mátaðar við. Húrra, þetta var alveg eins og ég vildi hafa það – og það sem meira og betra er, eigendur herbergisins urðu súper hrifnir…
…næsta vers, pússa létt yfir með sandpappír, grunna og að lokum mála…
…þetta var málað með sömu málningu og er á veggjunum, en liturinn er Kemur frá Slippfélaginu – og já, það var borað gat í gegnum hurðina fyrir snúrurnar…
…sko bara, mynstrið er að njóta sín enn betur núna og það er eitthvað svona vintage og jafnvel royal við að sjá þetta svona…
…og útkoman – ég er alsæl!
Ég er líka svo ánægð með að horfa á hvað þetta smellur vel saman, sjáið t.d. hvernig skugginn af ljósinu passar akkurat á óútskorna hlutann…
…og þið sjáið bogann á ljósinu og “krullið” sem er í honum…
…það er nánast alveg eins og mynstrið sem er á spýtunni…
…þetta gerir ljósin enn fallegri, og þau eru að njóta sín svo mikið betur…
…enda hefði verið synd að stía í sundur þessu setti…
…aftan á plöturnar var bara útbúin festing fyrir skrúfu, og við settum síðan mjúka filttappa á hornin á spýtunni, þannig að þetta helst aðeins frá veggnum…
…hvað finnst ykkur? Ekki bara frekar flott?
Það er líka geggjað skemmtilegt að finna lausnir til þess að nýta hlutina áfram, finna þeim nýtt hlutverk, nýjan tilgang og leyfa þeim að halda áfram að gleðja augað, bara á glænýjan máta ♥
P.s. Annars langar mig líka til þess að biðja þig, sem þetta lest, að smella á like-takkann ef þú hafðir gaman að póstinum. Að baki flestum póstum liggur margra klukkustunda vinna og mér þykir alveg afskaplega vænt um þessi litlu sætu like þegar mér berast þau. Þetta er bara svona eins og að segja góðan daginn með brosi á kaffistofunni – það þarf ekkert, en það kunna allir að meta það ♥
Aldeilis frábær niðurstaða og glæsileg hjá þér/ykkur….þetta er svo gott að geta nýtt það sem aðrir hafa ekki lengur þörf fyrir og vilja losa sig við.Gefum hlutum nýtt hlutverk og um leið nýja möguleika.Eigðu góðan dag…..
Þetta er geðveikt!!! Oh, þyrfti að fá þig í heimsókn til mín vegna óvæntra breytinga sem við þurfum að gera
Þetta er algjörlega frábær hugmynd 🙂
Algjör snilld!
Þetta kemur ekkert smá vel út, þú ert algjör snillingur 🤩👏
Vá þvílík snilld 👏👏ég elska að lesa/ skoða póstsna þína 🙂
Mikið ofboðslega er þetta fallegt hjá ykkur, hugmyndaflugið hjá þér er bara snilld..