…eitt af því sem ég hef ótrúlega gaman að, er að aðstoða fólk við að breyta heima hjá sér og gera heimilin enn fallegri. Það sem ég legg alltaf upp með er að halda í þá hluti sem fólki er annt um, og hreinlega að nýta það sem fyrir er. Því að oftar en ekki erum við alltof snögg að skipta út þrátt fyrir að eiga eitthvað sem gæti virkað vel, með litlum tilfæringum.
Dásamlegu hjónin sem eiga þetta alrými (stofa og borðstofa) voru alveg sammála um að vera ekki alveg sammála, og langaði því að fá smá ráðleggingar um hvað væri hægt að breyta og bæta til þess að þeim liði hreinlega enn betur heima hjá sér.
Þau sendu mér þessar fyrir-myndir, og eins og sést berlega – þá er þetta fallegt heimili og þau áttu fallegar mublur…
…það sem mér þótti helst koma að sök, var að þegar maður horfir á þessa mynd – þá sést að flest öll húsgögnin stóðu við endavegginn í stofunni. Það var næstum bara vatnshalli á rýminu sökum þyngdar þarna öðru megin…
…á móti kom síðan risastór autt pláss, þar sem að yndislegi hvuttinn þeirra lét bara fara vel um sig…
…fyrir framan eldhúsið voru þau svo með leðursófa og skemil, og sjónvarpsskenk. En í hvert sinn sem þau ætluðu að hafa það kózý – sem sé á hverju kvöldi – þá þurftu þau að draga skenkinn (sem var á hjólum) fram á gólf…
…þetta þótti mér alveg ómögulegt. Að vera með stóra stofu sem stóð að miklu leyti tóm, og var nánast ekkert notuð. Að vera að kuldrast í litlu horni í stað þess að vera bara í fallegu plássi þar sem ekkert þurfti að gera annað en að sitjast niður og njóta.
Sjónvarpshorn fyrir…
Sama horn á eftir…
…eins og þið sjáið þá er munurinn gífurlegur! Í stað þess að vera með sófann þarna, þá er kominn kózý hægindastóll þar sem hægt er að sitja og spjalla við hvern þann sem er að elda eða vinna í eldhúsinu. Ekta svona til þess að sitja með bókina, Ipadinn eða bara kúra undir teppi.
Stofan fyrir…
Stofan á eftir…
…það var ótrúlega að við það eitt að færa sófasettið úr horninu, þá var eins og það tæki gífurlegan vaxtarkipp og bara yrði allt í einu fullorðins. Lági skenkurinn var færður undir gluggann, og þannig nýtur hann sín mikið betur. Hærri skápurinn fékk líka að vera áfram, en við tókum tréskrautið ofan af honum. Því að með því að vera með það þá virkaði hann minni í svona mikilli lofthæð. Ný og stærri motta, stærri sjónvarpsskenkur en annars eru bara sömu hlutirnir þarna inni að öllu leyti.
Auk þess var bætt við gardínustöngum og síðum hvítum gardínum, bara til þess að fá mýktina og kózýheitin sem fylgja þeim. Önnur smá breyting sem gerði mikið fyrir rýmið…
Hér er líka ein mynd sem er tekin í miðjum klíðum.
Sem sé búið að færa til hlutina, en ekki gera neitt við vegginn. Þar sem að sjónvarpið og hringveggkertastjakarnir eru svipað að stærð og lögun, þá vantaði að gera eitthvað við vegginn til þess að “fylla betur” upp í hann…
Einföld lausn var að setja upp myndaramma og léttar hillur. Hlutir sem gera manni kleift að leika aðeins með það sem er í hillunum, og þá er auðveldara að breyta og skipta út. Svo er líka auðvelt að stækka grúbbuna enn frekar ef þeim langar. Auk þess er þetta mjög svo hagkvæm lausn…
Þið sjáið líka hvað þetta opnar vegginn mikið og gerir hann meira spennandi…
Það var líka alveg upplagt að færa til borðstofuborðið og nýta þannig auða plássið, borðið var líka komið nær eldhúsinu og fékk virkilega að njóta sín…
…hér sést líka vel hvernig rýmin tengjast. En það skemmtilegasta við þetta allt saman, var að hjónin sögðu mér að áður sátu þau bara oftast tvö saman að horfa á sjónvarpið. En eftir að það var fært, og plássið var meira og auðvitað meira kózý, þá eru dætur þeirra iðulega farnar að sitja með þeim inni í stofunni. Eins er kózýstóllinn í miklu uppáhaldi og það er alltaf einhver að nota það pláss. Hversu dásamlegt er það 🙂
Ég ætla að gera sérpóst þar sem ég fer yfir það sem var keypt nýtt inn og hvaðan það er, en ég var bara svo spennt að deila með ykkur þessum fyrstu myndum. En þessu er að sjálfsögðu deilt með leyfi húsráðenda, og kann ég þeim mínar bestu þakkir fyrir ♥
P.s. Annars langar mig líka til þess að biðja þig, sem þetta lest, að smella á like-takkann ef þú hafðir gaman að póstinum. Að baki flestum póstum liggur margra klukkustunda vinna og mér þykir alveg afskaplega vænt um þessi litlu sætu like þegar mér berast þau.
þetta eru glæsilegar breytingar:) eitt sem mig langar að sjá er hvernig þú græjar ljósastæðið fyrir kúplana 3 🙂 áttu nokkuð mynd af því:)
Mikið eru þetta vel heppnaðar breytingar. Ótrúlega falleg og skemmtileg rými núna án þess að eyða fúlgu fjár.
Vá flottar breytingar 🙂
Þú ert snillingur!
Flottar breytingar. Er hægt að fa aðsenda þér mynd af vegg og fá tillögur?