…ok, tölum saman í alvörunni. Ef það er eitthvað, sem mér finnst almennt einkenna tal flestra fyrir jólin, er það að fólk segir “okkur vantar ekki neitt” – eða “við eigum allt”. Það sama á við þegar maður spyrst fyrir um hvað sé á óskalista krakka, þá dæsa foreldrar og stynja við það að reyna að finna út hvað í ósköpunum sé eiginlega hægt að kaupa til þess að bæta í dótahrúguna sem til er nú þegar.
Það er ýmislegt til ráða:
Eitt er að hætta að gefa jólagjafirnar um fermingu – eins og margar fjölskyldur gera – og í stað þess væri t.d. hægt að vera með pakkaleik í jólaboðinu ykkar. Þá er dregið um nöfn, og þú átt að gefa eina gjöf og færð í staðinn eina gjöf. Það væri t.d. hægt að hafa það aðeins veglegri gjöf en þegar eru gefnir margir litlir pakka, og þá kannski meiri líkur á að það nýtist betur. Eins væri hægt að hafa þemu í gjöfunum, í ár eru þær að tengjast mat, næsta ár útivist eða kannski verða þær að vera heimagerðar. Það er hægt að leika sér með þetta.
Annað sem hægt er að gefa eru gjafir sem eyðast. Þá á ég við mat sem klárast, eða garn sem er prjónað úr. Það er t.d. skemmtilegt að gefa uppskriftarbók og eitthvað sem þarf til þess að fara nýta sér bókina – hráefni í köku? Eða gefa uppskriftablað og svo garn, væri t.d. hægt að benda viðkomandi á að þú notir yfirleitt M til L 😉
Það er líka sniðugt að gefa upplifanir, miða í leikhús, miða í bíó, út að borða, eða bara bjóða í bústað yfir helgi. Eitthvað sem er skemmtilegt og skapar minningar.
En svo ég komi mér að efninu, annað sem mér hefur þó sniðugt, það er hreinlega minnka umfang gjafarinnar. Gefa eitthvað lítilræði, fallegt kerti eða kannski krúttlegan kaffibolla og gott kaffi, og síðan að hafa með t.d. Gjafabréfið frá UNICEF sem segir að þú hafir keypt fyrir hönd viðkomandi sanna gjöf!
Áður en lengra er haldið þá tek ég fram að þessi póstur er EKKI kostaður og er bara af mínu frumkvæði þar sem mér þótti þetta sérlega góð málefni og sniðug hugmynd.
❤
UNICEF á Íslandi – smella hér fyrir Sannar gjafir
Af heimasíðu UNICEF – Sannar gjafir:
Sannar gjafir UNICEF eru lífsnauðsynleg hjálpargögn fyrir bágstödd börn. Gjöfunum sem þú kaupir í vefverslun UNICEF er dreift til barna og fjölskyldna þeirra í samfélögum þar sem þörfin er mest.
Sannar gjafir UNICEF eru keyptar í nafni þess sem þig langar að gleðja. Þú færð fallegt gjafabréf með ljósmynd og lýsingu á gjöfinni og lætur viðkomandi fá bréfið. Hjálpargögnin sjálf eru hins vegar send úr birgðastöð UNICEF til barna í neyð.
Þú getur valið um margs konar hjálpargögn í öllum verðflokkum. Öll eiga þau eitt sameiginlegt: Að bæta líf barna um víða veröld.
Er hægt að gefa fallegri gjöf?
Þetta virkar sem sé þannig að þú velur bara hvað þú vilt gefa, hvort sem það er hlýr vetrarfatnaður, næringarmjólk, námsgögn eða bara hvað sem þú kýst. Verðið er allt frá 804kr og upp úr, og eitt er alveg víst – þörfin er gríðarlega mikil! Þannig að þetta er vert að skoða! Þú færð síðan gjafabréf til þess að afhenda þar sem tekið er fram að “sönn gjöf var verið gefin í þínu nafni til þeirra sem virkilega þurfa á því að halda” – mikið er það góð tilhugsun ♥
Auk þess er vert að benda á að hægt er að gerast Heimsforeldri. Af heimasíðu:
Heimsforeldrar eru hugsjónafólk sem hjálpa börnum um allan heim. Heimsforeldrar hjálpa börnum á öllum aldri, í ólíkum aðstæðum – allan ársins hring.
Allur stuðningur við starf UNICEF er mikilvægur og við fögnum hverju einasta framlagi. Mánaðarlegar gjafir heimsforeldra eru þó einstakar því þær gera okkur kleift að aðstoða þar sem neyðin er mest, óháð kastljósi fjölmiðla.
En þú getur skráð þig inni á síðu Unicef (smella hér) og þú velur bara hvaða upphæð þú vilt gefa mánaðarlega. Sjálf er ég búin að vera Heimsforeldri í meira en 12 ár og mæli svo sannarlega með því.
❤
Önnur síða á svipuðum nótum er UN Women!
Af heimasíðunni:
Jólagjöf UN Women 2018 er unnin í samstarfi við Reykjavík Letterpress og ber heitið Vonarneisti. Vonarneistinn er táknrænt eldspýtnabréf sem stendur fyrir vonina sem kviknar í lífi Róhingjakonu þegar hún leitar til neyðarathvarfs UN Women við Balukhali flóttamannabúðirnar í Bangladess.
Rúmlega 400 þúsund Róhingjakonur búa við erfið lífsskilyrði í flóttamannabúðunum við Cox‘s Bazar. Margar þeirra eru ekkjur og einstæðar margra barna mæður, nýbúnar að flýja heimkynni sín í Mjanmar eftir ofsóknir og gróft ofbeldi. Þær þora ekki að fara út úr kofum sínum eða taka þátt í samfélaginu af ótta við ofbeldi nýju aðstæðum.
Allur ágóði af sölu jólagjafarinnar rennur til neyðarathvarfs UN Women þar sem konurnar fá áfallahjálp, öruggt skjól og atvinnutækifæri. Auk þess dreifir UN Women sæmdarsettum sem inniheldur helstu hreinlætisvörur, teppi, vasaljós og vistvæn kol til matseldar og upphitunar.
Samhliða jólagjöfinni voru framleiddir einstakir gjafamerkimiðar UN Women og Reykjavík Letterpress og rennur allur ágóði af sölu þeirra einnig til neyðarathvarfsins.
Jólagjöfin og merkimiðarnir fást í gjafaverslun eða í síma 552-6200. Vonarneisti kostar 3.990 og gjafamerkimiðarnir (8 stk. í pakka) kosta 2.590.
Smelltu hér til að kaupa vonarneista | Smelltu hér til að kaupa gjafamerkimiða
Sjálf er ég búin að kaupa gjafamerkimiðana og hlakka til þess að skreyta pakkana með þeim!
Einnig eru fleiri vörur inni á Gjafaversluninni þeirra, eins og t.d. Fokk Ofbeldi húfan og margt fleira.
Getið smellt hérna, til þess að skoða!
❤
Hjálparstarf kirkjunnar er líka með gjafabréf. Tekið af heimasíðu þeirra:
Í gjafaverslun Hjálparstarfs kirkjunnar www.gjofsemgefur.is færðu vörur sem þú færð hvergi annars staðar. Þú færð gjafir sem móttakandinn hér heima gleðst yfir og sá sem fær andvirði hennar, einhvers staðar úti í heimi – nú eða hér heima, verður enn kátari. Því hvort sem það eru hænur, heilt hús fyrir munaðarlaus börn eða hjálp til að komast á sumarnámskeið, þá eru það gjafir sem geta umbreytt lífinu fyrir fátækt fólk.
Unnið með fólki
Hjálparstarf kirkjunnar hjálpar þar sem þörfin er mest. Erlendis erum við alltaf í samstarfi við fólk, kirkjur og samtök á hverjum stað. Það fólk þekkir best vandann sem glímt er við og leiðir til að leysa hann. Okkar hugmyndum og lausnum er ekki þröngvað uppá fólk og þess vegna eru allar gjafirnar sem þú getur keypt hér, eitthvað sem örugglega vantar og örugglega kemur að gagni.
❤
Að lokum, fyrir ykkur sem viljið gefa eiginlegan pakka þá langar mig að benda ykkur á vefverslunina hjá Krabbameinsfélaginu – KRABB.IS smella hér til að skoða – en þar má kaupa vörur frá Iittala, Múmínvörur og margt annað fallegt. Allur ágóði af sölunni þar inni rennur til Krabbameinsfélagssins.
Eins er Kraftur – Lífið er núna með heimasíðu, smella hér.
Kraftur er stuðningsfélag fyrir ungt fólk á aldrinum 18-40 ára sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur. Með þinni aðstoð getum við haldið áfram að styðja við bakið á skjólstæðingum okkar svo sem með ókeypis sálfræðiþjónustu, jafningastuðningi, almennum stuðningi, Fítonskrafti endurhæfingu, styrk til lyfjakaupa og neyðarsjóði.
Þar er t.d. hægt að kaupa perluarmböndin, Lífið er núna, og rennur allur ágóði beint til Krafts.
❤
Mig langar líka að minna á jólatré, bæði í Smáralind og í Kringlunni, og þar er tekið á móti gjöfum.
Tekið af síðu Smáralindar:
Pakkajól snúast um að gefa eina auka jólagjöf og setja undir jólatréð í Smáralind. Gjafirnar fara til barna á Íslandi sem búa við bág kjör. Við tökum við gjöfum til 20. desember.
❤
Listinn í þessum pósti er að sjálfsögðu ekki tæmandi, og mig langar að biðja ykkur til þess að bæta við hérna að neðan, eða inni á Facebook, ef þið vitið um góð málefni sem væri hægt að styrkja svona í þessum jólagjafapælingum. Það er nefnilega svo margir sem eiga um sárt að binda, því miður og dásamlegt að hugsa til þess að hvað gæti gerst ef allir myndu ákveða að gera eins og þeir geta til þess að hjálpa fyrir jólin, auðvitað eftir því hvað fólk ræður við.
Ég sá líka um daginn auglýst eftir sparifatnaði og utanyfirfötum, en ég finn ekki aftur hver auglýsti eftir, þannig að þið megið endilega upplýsa mig um slíkt hér fyrir neðan. Ég hugsa að það séu margir foreldrar sem koma til með að eiga eitthvað af slíku sem börnin eru vaxin upp úr – og hreinlega fatnaður af ykkur sjálfum sem þið eruð hætt að nota.
Sem sé póstur sem er aðeins út fyrir kassann, en ég vona innilega að þetta virkji ykkur ennfrekar, til þess að halda áfram að láta gott af ykkur leiða.
Einlæg ósk mín er að sem flestir fái tækifæri til þess að eiga gleðilega jólahátíð og njóta þess að vera með fólkinu sínu – reynum að hjálpast að, verum góð við hvort annað, virðum náungann og sýnum kærleika – hvort sem það er með svona aðstoð, eða bara með brosi og fallegum orðum ❤
ykkar
Soffia
Mjög góðar hugmyndir ❤ mun nýta mér eitthvað af þeim 😊