…er í dag!
Á vissan hátt, þá er hann svolítið notalegri en aðfangadagur. Stressið er búið, æsingurinn hefur hjaðnað hjá krökkunum, við erum búin að ná okkur í visst þol gegn kjötáti og erum hætt að svitna á efri vörinni – við það eitt að hugsa um hamborgarahrygginn, núna eru lætin búin og eftir situr þakklæti, rólegheit, ástin og umhyggjan….og svo seinna visareikningurinn 😉
Fyrir jólatröllana er þetta besti dagurinn, það er aldrei jafn langt í næstu jól og einmitt í dag, en fyrir krakkana þá er þetta gósendagur – loks smá friður til þess að sitja og skoða/leika/njóta þess að vera með nýtt skraut og annað glingur sem í pökkunum leyndust.Við héldum jólin okkar hérna heima í 3ja sinn. Með okkur voru foreldrar mínir og frænka, og síðan tengdaforeldrar mínir – þannig að við vorum vel byrg af yndislegum gestum. Flest allt gekk upp! Pakkar voru komnir undir tré og húsið skreytt, hreint á rúm og meira segja búið að strauja. Baðið þrifið og gólfið ryksugað – en hér kemur játning, við náðum ekki að skúra! Jesú minn á jólunum sko, ég bíð bara eftir að jólakötturinn mæti á svæðið og rífi mig í sig.
En það má samt segja að það hafi verið eins gott, þvílík sprengja sem stofan var eftir pakkana – drasl um allt. jólakúla fór í gólfið og brotnaði, sonurinn rak sig í hillu og braut einn glerkúpul, og fyrr um daginn óðu tveir jólasveinar inn um gólf á skítugum stígvélum.
En, eftir á að hyggja, þá breytti þetta ekki neinu. Ekki hefði ég viljað skipta út jólasveinaheimsókninni fyrir hreinna gólf. Þegar fram líða stundir þá er ég viss um að heimsóknin er minnistæðari í huga barnanna minna. Ég var búin að lesa nokkrar uppskriftir að spennandi forréttum með hráskinku og melónu og ætlaði að gera einhverjar stórfenglegar parmeseanosta-skálar. Klukkan 17:30, var ekkert tilbúið fyrir forrétt – lausnin, smá kál á disk, smá melóna, hráskinka og nokkur jarðarber og svo gróft salt. Átti örlitla piparsósu sem fólk gat gluðað á diskana með. Þetta var mjög svo “metnaðarfullt”, en þó mjög gott. Létt og ljúft svona áður en þungi maturinn tók við. Þannig að, það þarf ekkert allt að vera pörfekt. Það þarf ekkert allt að vera reddí!
Þannig óska ég þess að jólin ykkar hafi verið. Ekki fullkomin, en bara þannig að þetta hafi allt farið eins og best er á kosið. Að þið hafið fengið gott að borða, ærlegt jólaknús og svo sem einn fallegan pakka. Ég ætla að setja inn póst með myndum frá aðfangadegi og sýna ykkur hitt og þetta, en í dag – þá langar mig bara að segja:
Gleðileg jólin elsku þú og ég vona að hátíðin reynist þér sérlega ljúf, og takk, takk fyrir að koma við og lesa ♥
P.s. Annars langar mig líka til þess að biðja þig, sem þetta lest, að smella á like-takkann ef þú hafðir gaman að póstinum. Að baki flestum póstum liggur margra klukkustunda vinna og mér þykir alveg afskaplega vænt um þessi litlu sætu like þegar mér berast þau. Þetta er bara svona eins og að segja góðan daginn með brosi á kaffistofunni – það þarf ekkert, en það kunna allir að meta það ♥
Gleðilega hátíð frú fagurkeri, takk fyrir dásamlega pósta, viðtalið við þig fyrir jólin í sjónvarpinu var svo flott og kjóllinn sem þú varst í var æði ❤️🎄❤️
Gleðileg jól og takk fyrir alla frábæru póstana þína á þessu bráðum liðna ári. Fyrir mig er það ákveðin heilun að lesa þá, enda eru þeir alltaf svo jákvæðir og bjartsýnir fyrir utan að vera algjört konfekt fyrir augað og hugann.
Gleðilega hátíð. Þakka póstana þína undanfarin ár. Ég dett inn á þá af og til og hef alltaf gaman af. Kveðja frá Akureyri.
Gleðileg jól elsku Soffía og fjölskylda ❤ Er fyrir löngu búin að komast að því að fullkomnun jólanna eykst ekki í jöfnu hlutfalli við hversu vel er skúrað, tekið til eða bakað. Er mjög fegin að hafa uppgötvað það, eins frágangsfælin og ég er… 😉 Um að gera að njóta þess sem maður hefur, njóta samveru með fjölskyldu og vinum og vera þakklátur.
Knús til þín og þinna mín kæra, njótið áfram ❤