…það kom alveg hreint snilldar verkefni inn á SkreytumHús-hópinn í gær. Hún Íris Rut gerðist svo sniðug að útbúa sér nýjan rúmgafl fyrir hjónarúmið. Hún var svo elskuleg að leyfa mér að deila með ykkur leiðbeiningum og myndum og kann ég henni mínar bestu þakkir fyrir.
Ég gef þessari snilldardömu því bara orðið!
***
Mig hefur lengi langað til að prufa að gera bólstraðan rúmgafl og lét loksins verða af því 🤗 það var mun auðveldara, fljótlegra og skemmtilegra en ég hafði haldið 😀👏👏
.. svefnherbergið fékk svo löngu tímabæra yfirhalningu í leiðinni.
Svefnherbergið – fyrir breytingar!
Það sem þarf:
* Plötu: þá stærð sem þarf, mín er 160 x 75 cm. Gott er að hafa hana þykka til að óhætt sé að hefta í hana án þess að heftin fari í gegn. Platan sem ég notaði var 14 mm á þykkt.
(Tips: ég fékk plötuna á 500 kr í Bauhaus en þar er oft úrval af “bitum” sem hafa verið sagaðir af stærri plötum og skildir eftir. Starfsfólkið sagar síðan til eftir þörfum. Þar sem útlitið skiptir ekki máli er þetta tilvalinn efniviður 🙂 )
* Eggjabakkadýna: ódýrasta sem ég fann var í rúmfatalagernum á 3.500 hún var 90 x 2
* Efni til að klæða: Ég fékk fallegt 100% bómullarefni í rúmfatalagernum (HOME minnir mig að merkið heiti) það fæst ekki í metraverði en var ódýrara að kaupa heilan striga af því heldur en að fá metravöru á þeim stöðum sem ég kannaði. Striginn kostaði 3.900
* Veggfestingar: setti 4 stkykki til að dreyfa þyngdinni. Fást 2 saman í pakka i bauhaus á ca 250 kr.
* Tölur til að klæða: þetta var dýrasti hlutinn af þessu öllu saman.. fékk þær í föndru mig vantaði 50 tölur og það kostaði tæpar 9 þúsund krónur. Mér Dauðbrá hvað þessi hluti varð kostnaðarsamur! Eflaust hægt að fá þær á aliexpress á klink 🙂
* Tölur til að strekkja: skiptir engu hvernig þessar eru.
* Sterkt band til að hnýta tölurnar í.
* Heftibyssa og hefti, Borvél, málband og túss 🙂
Heildarkostnaður um 17.500 ca.. ekki alveg nákvæmar tölur hjá mér (mæli með að athuga tölurnar annarstaðar!)
Aðferð:
1. Mæla, merkja og bora í plötuna: Ég strikaði 10×10 cm rúður á plötuna hjá mér sem gerði 16 rúður yfir plötuna. Síðan merkti ég í hornin á rúðunum hvar ég ætlaði að bora göt fyrir tölurnar. Hér er ákveðið hversu margar tölur verða á gaflinum og staðsettning þeirra. Ég merkti í aðra hverja rúðu =20 cm á milli. Þegar búið er að merkja fyrir götum er komið að því að bora götin í plötuna.
2. klæða bakhliðina: strekkja efnið og passa að engar fellingar séu, leggja plötuna ofan á og hefta efnið vel á plötuna. Ég notaði síðan túss og gerði punkt á klæðninguna þar sem götin voru til að einfalda leitina þegar kemur að því að setja tölurnar á.
3. Sníða svampinn: leggja plötuna ofan á og klippa meðfram.
4. klæða gaflinn: efnið strekkt , svampurinn lagður ofan á og að lokum platan. Strekkja efnið vel og hefta fast, ég braut uppá endana til að frágangurinn yrði snyrtilegri.
Hefta vel 🙂
5. klæða tölurnar og festa þær á: svolítil handavinna að gera tölurnar en þegar þær eru tilbúnar er komið að því að festa þær í.
-Taka bakhliðartölu og þræða band í hana þannig báðir endar séu á sömu hlið (myndi “U” í gegnum töluna)
-Báðir þessir endar þræddir í stóra nál og þræddir frá bakhlið og að svampinum. Þannig að út úr svamphliðinni standi út tveir endar.
– Annar endanna þræddur í gegnum framhliðartölu, henni þrýst eins langt niður og mögulegt er, hinn endi spottans tekinn og talan hnýtt niður vel og vandlega. Klippa sopttana sems standa út út. Endur tekið fyrir allar tölurnar.
6. Festa veggfestingar og hengja afrekið upp : )
Ótrúlega flott – hjartans þakkir kæra Íris Rut fyrir að leyfa mér að deila þessu, og til hamingju með þetta vel heppnaða og fallega svefnherbergi ❤️
Geggjaður rúmgafl! 😊 langar svolítið að gera svona 😉
Virkilega fallegt! Hef ekki orku og þolinmæði
eins og er- kannski ráð að blikka bóndann-
ekki viss um að hann verði mjög kátur🙂🙃