Mig langaði að deila með ykkur þessu litla viðtali sem birtist við hana mömmu mína í Morgunblaðinu núna í vetur – ótrúlega stolt af þessari listakonu sem hún er ♥
Múmínbollar og aðrar vörur tengdar múmínálfunum hafa undanfarin ár notið gífurlegra vinsælda hér á landi og víða um heim. Helga Nielsen gekk þó skrefinu lengra en að fara að safna slíkum bollum og málaði sína eigin bolla, sem barnabörn hennar og aðrir ættingjar hafa fengið að njóta undanfarin ár. Helga segir að skreyting postulíns og silfursmíði hafi gefið henni nýtt líf eftir að hún hætti að vinna fyrir rúmlega 10 árum.
Í heildina hefur Helga málað yfir 35 múmínbolla, sem hún hefur gefið barnabörnum sínum. Upphafið segir Helga að rekja megi til þess að hún fór á eftirlaun og hætti að vinna hjá Landsbankanum í kringum árið 2003. Þá hafði hún unnið þar í um 50 ár og segir hún að fyrst hafi sér þótt lífið búið þá. „Ég lá bara heima með tærnar upp í loft og var að mygla,“ segir hún hlæjandi. „En svo sparkaði ég í rassinn á mér og ákvað að finna mér eitthvað að gera,“ bætir hún við.
Helga segist alltaf hafa haft áhuga á silfursmíði og hún hafi komist að því að slík námskeið væru í boði í Gjábakka í Kópavogi. Þar var hún í silfursmíði í tvo vetur og segir að það hafi verið æðislegur tími, sérstaklega af því að hún hafi getað stundað smíðina líka heima hjá sér. Fljótlega fóru að streyma ýmiss konar skartgripir frá Helgu og fengu margir vinir og ættingjar að njóta.
Helgu er sérstaklega minnisstæð ein smíði, en þá gerði hún armbönd fyrir tvö af barnabörnum sínum, stúlku sem var að fermast og aðra sem var erlendis á þeim tíma. Sú sem var að fermast fékk sitt armband en þegar sú seinni kom frá útlöndum fannst askjan með armbandinu ekki. Helga segir að hún hafi þá talið líklegt að annaðhvort hafi armbandið farið út í blaðagám með dagblöðum sem höfðu verið á borðinu eða þá að álfarnir hafi fengið það lánað.
„Ég sagði þá að ég ætlaði að trúa því, þeir skila því þá þegar þeir eru hættir að nota armbandið,“ segir Helga. Svo leið og beið og nú síðasta sumar þegar Helga og maðurinn hennar ætluðu að flytja fannst armbandið á lokadegi flutninganna. Efst í silfurvinnukassanum sem þó hafði verið notaður í ótal skipti síðan armbandið týndist. „Ég er alveg klár á því að álfarnir hafi fengið þetta lánað,“ segir Helga.
Eftir talsverða silfursmíði sneri Helga sér þó að því að mála postulín, sem henni hafði í langan tíma þótt áhugavert. Hún keypti meðal annars stóra vasa sem hún teiknaði á fríhendis og lét svo brenna og lita eftir eigin höfði.
Helga og Garðar Jökulsson, eiginmaður hennar, eiga í heildina átta barnabörn og eitt barnabarnabarn. Helga segir að eftir að hún kláraði múmínálfabollana hafi hún snúið sér að því að gera litla bolla með undirskál fyrir barnabarnabörnin. Þar má meðal annars líta krakkamyndir og myndir af álfum. Garðar er sjálfur listmálari og segir Helga að honum sé margt annað til lista lagt. Þannig hafi hann samið vísur og skrifað þær aftan á alla litlu bollana.
Frábært viðtal, mamma þín er mögnuð.
Kveðja
Vala
Dásamlegt.
Listamaður af Guðsnáð hún mamma þín…..sé hvaðan þú hefur þína listfengi Soffía…..
Vá – hún er dásamleg hún mamma þín. Þvílíkir hæfileikar hjá þeim hjónunum því myndirnar hans pabba þíns eru æðislegar 🙂
Hún er náttúrulega bara einstök hún mamma þín! Og pabbi þinn líka 🙂 Ekki nema von að þú sért svona frábær og hafir þetta sérstaka auga fyrir þessu fallegu smáatriðum (og aðalatriðum) í öllu…ekki langt að sækja þetta 🙂
Dásamlegt að opna þessa sýðu að morni og sjó þessi dásemd sem koma frá móður og föður þínum þetta er sko fólk sem er alið upp við að “ þú skalt ekki láta verk úr hendi falla “ þakka þér fyrir að deylla þessu með okkur ég fer glöð og ánægð inn í daginn eftir að hafa séð þessa dásemd og að fólk er svona duglegt og hugmynda ríkt ér pabbi þinn ekki líka að smíða ramma útlánum myndir ? Þú hefur ekki lángt að sækja S listsköpunina takk og aftur takk 🍀