Þorláksmessa…

…og það þýðir að það er komið að þessu.  Blessuð jólin eru á morgun.

Mér líður eiginlega rosalega skringilega.  Ég er afskaplega spennt og kát fyrir hönd barnanna minna, sem eru svo glöð og spennt.  En að sama skapi þá er ég með hnútinn í maganum sem venjulega er þarna um áramótin.  Þið vitið, þennan sem þýðir að ég er svo meyr að það má ekki segja neitt við mig, þá er ég komin með kökk í hálsinn. Ég er að segja ykkur að ég horfði á Christmas Vacation og fékk tár í augun.

Ég því bæði kát og leið, glöð og stressuð – og þannig hefur desember verið.

…ég er búin að velta þessu fyrir mér, hvað valdi þessari vanlíðan hjá mér og hef komist að því að ástæðan er tvöföld.  Hún er persónuleg og hún er líka bloggleg.

Persónulega ástæðan er í raun augljós.  Í fyrsta sinn, síðan ég var 18 ára þá eyði ég aðfangadagskveldi með foreldrum mínum.  Það finnst mér yndislegt. Krakkarnir mínar hafa heldur aldrei verið með þeim og því finnst mér hreint dásamlegt að þau fái tækifæri til þess.  Mamma hefur reyndar verið lasin og það er ekki alveg komið á hreint hvernig þetta fer, en ég krossa fingur og vona það besta.  Yndislega dóttir mín sagði ætla að biðja til Guðs um að ömmu liði betur.  Síðan spurði hún mig, mamma – þarf ég að vera á hnjánum við rúmið og spenna greipar til þess að Guð heyri í mér.  Ég fullyrti við hana að hún þyrfti ekki að gera neitt annað en að hugsa sínar fallegu og hlýju hugsanir og þær myndu fara á rétta staði – án nokkurs vafa ♥

En eins kát og ég er með að hafa foreldra mína og frænku á aðfangadag.  Þá er ég líka svo mjög leið yfir að tengdaforeldranir verða ekki með okkur.  Eftir að hafa hugsað aðeins út í það, þá eyddi ég fyrstu 18 jólunum með mínu fólki, en hin 22 hafa verið með tengdafjölskyldunni og því verða mikil viðbrigði að hafa þau ekki til staðar.  Þannig að ég held að söknuður eftir þessu dásamlega fólki, þó þau séu í góðum málum hjá mágkonu minni og við hittumst um kvöldið, sé stór hluti af þessum kvíðahnút mínum.

Skyldi það vera eftir allt saman að ég þoli illa breytingar?

Ég held reyndar að stór hluti er sá að ég hef alltaf viljað hafa bara “ALLA” saman.  Við hjónin vorum aldrei svona, bara við tvö eða bara við þrjú á jólum (eftir að dóttirin fæddist) heldur bara, vera með fjölskyldunni okkar.  Fólkinu okkar, helst öllum.

Síðan er það þetta með bloggástæðuna, eða ætti ég að segja Facebook-ástæðuna?  Eins gaman og ég hef af þessu öllu, mér finnst þetta svo skemmtilegt og hef svo gaman af því að stússa í því sem ég geri – þá er einhver leiði í mér.  Ég er mikið búin að vera að velta þessu fyrir mér, og hef skrifað um þetta áður, og það þarf ekki nema 1 neikvæðisrödd sem að nær að drekkja óminn af öllum fallegu röddunum sem hrósa og eru jákvæðar.  En það er eitthvað við svona lengri tíma af nagi, að vita af einhverjum sem að nagar í hælana á þér sem er svo afskaplega lýjandi.

Mér finnst svo oft að ég þurfi að vera í vörn, að vera að “afsaka” mig og mitt, og mínar ástæður fyrir hvernig ég geri hlutina.

Í desember hefur t.d. verið þvílík ofgnótt af gjafaleikjum á öllum bloggum.  Allir með jóladagatal og jólagjafir.  Auðvitað er þetta yndislegt.  En mér verður bara nóg um.  Ég veit að þetta hljómar svo kjánalega hjá konunni sem er alltaf með mikið af öllu skrauti.  En mér finnst þetta vera um of.

Þess vegna var bara einn leikur sem ég var með inni á SH-hópnum, þar sem í verðlaun var 100.000 inneign í Bónus.  Ástæðan fyrir þessum leik var auðvitað að ég fékk GIES-kerti í frábært samstarf, en mest af öllu var ástæðan sú að vinningurinn var eitthvað sem gat breytt miklu hjá einhverjum.  Það að vinna inneign fyrir mat og öðru slíku fyrir fjölskylduna var eitthvað sem gaf í það minnst mér hlýtt í hjartað.  Ég veit að það skilja kannski ekki allir hvert ég er að fara, en mér finnst samfélagsleg ábyrgð skipta máli, og mér finnst það ekki vera í mínum anda að vera að mæla með púðum sem kosta kannski tugi þúsunda og fást í “réttu” búðunum.

Eg veit það hins vegar líka að þýðir að margir líti öðruvísi á mig, en aðra bloggara.  Ég er ekki nógu fín.  En ég verð bara að taka það á mig og bera, og geri það, en það þýðir samt ekki að þetta sé ekki stundum að síga aðeins í.  Ég verð þreytt.

Sömu sögu má segja inni á SH-hópnum, þar er ég að upplifa alveg hreint dásamlegar stundir.  Yndislegt fólk sem hrósar, sem deilir sínu og jákvæðnin ríkir nær undantekningarlaust.  En, og kannski er ég silly að segja þetta upphátt og að lesa í “like-in”, stundum er eins og það sé undirliggjandi tónn sem hljómar alltaf í neikvæðni og eins og það sé verið að reyna að finna eitthvað að.  Vona að þetta sé að skiljast hjá mér.

Eins og þegar ég sýni jólatréð, að þá haldi fólk að hér sé um að ræða eitthvað stílíserað og sterílt jólatré.  En svo er ekki.  Tréð mitt okkar er smekkfullt af minningum og föndri og gömlu blandað saman við.  En hins vegar, þá hef ég lag á að raða hlutunum saman, þannig að þetta virki kannski sem ein svakaleg heild.

Vá, hvað það er erfitt að reyna að skrifa sig í gegnum svona hugsanager.

Æji afsakið þetta rambl í mér – ég vildi bara svo gjarna ná að koma niður á blað þessum hugsunum sem eru búnar að vera að leika lausum hala í hausnum á mér, og hafa í raun verið að hamla mér frá því að skrifa hérna inn.  Ég sest við tölvuna og sit svo tímunum skiptir, á hverju kvöldi, en oft fer t.d. megnið af tímanum í að taka til og vera með í SH-hópnum, og ég stend mig að því að skrifa ekki neinn póst hingað inn.  Eins þykir mér á vissan hátt leiðinlegt að sjá hvernig kommentin hérna inni (fyrir utan ykkur sem eruð alltaf svo yndislegar að láta vita af ykkur – ♥ takk þið vitið hverjar þið eruð ♥) vera að deyja út.  Flestir skrifa bara inni á hópnum eða á Like-síðunni, og þar er þetta eins dropi í hafið sem hverfur um leið og hann lendir.

En núna er ég vonandi búin að ná að hreinsa til í hausnum á mér.  Gera jólahreingerningu og get þá vonandi farið að nýta hausinn í betri og afkastameiri hluti á næstunni.  Í staðinn langar mig að biðja ykkur um að smella á like-arann fyrir mig, hvort sem það er hér inni á Facebook.  Bara svona til þess að ég viti að þið eruð þarna, og mest af öllu, að ég viti að þið hafið í raun smá gaman af því hvað þessi röflandi, ofskreytandi, örlítið þreytandi kona er að stússa endrum og sinnum.

Mest af öllu vona ég að þið eigið indæla Þorláksmessu.  Munið að það er ekkert til sem að er að “klára allt”.  Smákökur og tiltekt, jólakort og allt það – ef við erum með gott að borða og pakka fyrir káta krakka, og mest af öllu – með fólkinu sem okkur þykir vænst um, þá erum við á góðum stað á jólunum.

Seinna í dag kemur inn póstur með jólaborði – þangað til knús ♥

p.s. ef þú vildir vera svo dásamleg/ur að smella á like, svona af því að þú last póstinn og hafðir gaman að, þá yrði ég þér afar þakklát.  Ekki væri nú verra að heyra frá þér, ég er stundum hálfeinmanna hérna inni🙂

26 comments for “Þorláksmessa…

  1. Margrét Einarsdóttir
    23.12.2016 at 08:35

    Gleðileg jól til þín og þinna, takk fyrir alla bloggpósta, pælingar, myndir, hugmyndir, leiki, búðarinnlit og allt annað.
    Það er hluti af daglegri rútínu að kíkja í kaffiblogginnlit, sjá hvað er verið að bralla gera á fallegu heimili hjá smekkmanneskju 😉
    Ég dáist að dugnaði þínum að halda svo úti bloggi, FB grúbbu með hva 30.000 aðilum og snappi til viðbótar við fjölskyldu, skreytingar og annað/aðra sem er í lífi manns.
    Jólakveðja

  2. Guðrún
    23.12.2016 at 08:41

    Elsku Soffía. Þú ert yndi, eins og þú ert og eins er með allt sem þú gerir. Takk fyrir allt, helst og mest fyrir bloggið þitt og fyrirgefðu að ég er ekki dugleg að kvitta þó ég lesi ALLTAF. Gleðileg jól til þín og þinna. Jólaknús, Guðrún

  3. Gulla
    23.12.2016 at 08:52

    Kæra Soffía,
    búin að fylgjast með þér frá byrjun. Takk fyrir 🙂
    Óska þér og þínum gleðilegra jóla!

  4. 23.12.2016 at 09:07

    Kæra Soffía,

    Takk fyrir alla skemmtilegu póstana þína fallegu myndir af uppsetningum ja bara allt bloggið þitt hlakka alltaf til að fá nytt blogg og dett svo inn og skoða gömul já það getur sko teigts úr veru minni inni á síðunum þínum því mér líkar þær mjög vel.
    Hlakka til að heyra meira frá þér í framtíðinni.
    Gleðileg jól kæra Soffia og fjölskylda.

  5. Guðný Drífa
    23.12.2016 at 09:22

    Sæl Soffía, ég les mjöööög oft og búin að gera það lengi en kvitta sjaldan…
    Gleðileg jól og njottu hátíðanna og breytinganna 🙂

  6. Guðný G
    23.12.2016 at 09:27

    Elsku Soffía. Mér finnst bloggið þitt yndislegt. Þú hefur gefið mér ótal góðar hugmyndir. Og það besta er að þær kosta ekki hálfan handlegg. Það er nú svo að neikvæðu raddirnar borast betur inn i hausinn á okkur heldur en þær jákvæðu Við verðum að halda okkar striki og brosa framan í lífið. Ég vona að þú haldir áfram með þitt dásamlega blogg. Óska þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Bíð spennt eftir næsta bloggi. Ást og friður

  7. Margrét Milla
    23.12.2016 at 09:27

    Ég er ein af þessum sem smelli á læk en er ekki nógu dugleg að skrifa, ég drekk samt hvert orð sem þú skrifar í mig og finnst allt æði hjá þér. Enda er ansi margt hjá mér sótt til þín 😉 þú ert með eitt það fallegasta hjarta sem ég hef kynnst svo þú ert ekki bara fyrirmynd mín í innanhússmálum heldur í lífinu almennt. Gleðileg jól mín kæra og ég sendi fallegar hugsanir til mömmu þinnar. Ég græt líka á gamlárskvöld svo að ég skil þig. Mér sjálfri finnst aðventan yndislegri en sjálf jólin.

  8. Ragga
    23.12.2016 at 09:38

    Gleðileg jól kæra Soffía til þín og þinna og megi nýtt ár fara mjúkum höndum um þig og þína fjölskyldu.
    Jólakveðja Ragga

  9. Bergþóra Linda H
    23.12.2016 at 10:08

    Gleðilega hátíð til þín og fjölskyldurnnar, og takk fyrir að halda þessu spjalli og bloggi á lífi án þín væri það ekki skemmtilegt.

    og góðan bata til móður þinnar.

    Hlakka til að lesa allt þetta fallega og skemmtilega frá þér á nýju ári.

    Takk fyrir mig.

  10. anna sigga
    23.12.2016 at 10:44

    Ég elska bloggið þitt les oft og og kíki oft á gamalt líka svona til uppryfjunar 😊og skemmtunar að mestu.
    Gleðilega hátíð til þín og þinna, kærleiksknús 😙😙

  11. Kristín S
    23.12.2016 at 10:56

    Sæl Soffía

    Ég fann hér á síðunni um daginn yahoo netfang og ég sendi þér póst á það. Er það ekki lengur virkt ?

    Langar til að óska þér og þínum gleðilegra og ánægjulegra jóla, að breyta til á jólunum er ótrúlega erfitt en þau verða einhvern samt alltaf svo góð

    vona að mamma þín nái sér og að þið náið að njóta hátíðarinna saman

    jólakveðja
    Kristín S

  12. Svandís J
    23.12.2016 at 11:18

    Gleðileg jól elsku yndislega Soffía mín. Þú ert svo lang lang mest uppáhalds bloggari/skreytari/andlegur leiðtogi minn 🙂 Ég er ein af þeim sem hefur svolítið dottið út úr kommentunum, eitthvað hefur gerst eftir að ég flutti til Íslands. Hraðinn og tímaleysið er farið að ná yfirtökum og maður gefur sér minni tíma í svona hluti eins og að þakka fyrir hreint dásamlega pósta. En þú nærð mér ALLTAF! Ég finn alltaf fyrir innblæstri frá þér þegar þú skrifar og setur inni myndir. Þú gerir heiminn betri með þínu framlagi, bæði fyrir augun og hugann <3 Ef það sækir á þig þreyta þá hikar þú ekki við að stíga til hliðar og ná upp orku, við bíðum á meðan… förum ekki neitt.

    Takk fyrir að vera þú! Ég óska þér alls hins besta um jólin, fyrir jólin og eftir jólin <3
    knúz
    Svandís

  13. Anonymous
    23.12.2016 at 13:10

    Gleðileg jól Soffìa til þín og þinna og takk fyrir skrifin þín og yndislegu myndirnar sem þú setur inn.Jólaknús.

  14. Sólveig
    23.12.2016 at 13:12

    Gleðileg jól Soffìa til þín og þinna og takk fyrir skrifin þín og yndislegu myndirnar sem þú setur inn.Jólaknús.

  15. Hulda
    23.12.2016 at 13:17

    Gleðileg jól til þín og þinna kæra Soffía það gerir þetta engin betur en þû … En þessi tilfinning að reyna að gera öllum til geðs er ekki gòð og það er ekki hægt …. Frekar en að reyna það ..þa er betra að vinna i þeirri hugsun reka hana î burtu 😉
    Góðir bata straumar til mömmu þinnar og eigið hàtiðina gleðilega❤️

    Kv
    Hulda

  16. Berglind
    23.12.2016 at 13:25

    Ég ætla sko að vera dugleg að kvitta því ég vil alls ekki að við missum af þér og þú hættir að deila öllu þínu með okkur 🙂
    Hef fylgst með frá byrjun og kíki mjög oft hér inn, oftar hér heldur en á fb.
    En ég segi eins og ein hér að ofan, hvaða netfang er virkt?

    Takk fyrir allt, fyrir að vera okkur hinum innblástur og drifkraftur og fyrir allar fallegu hugmyndinar sem ég elska að skoða og stela svo 🙂 (ekki öllu samt sko)

    Gleðilega hátíð 🙂

    og p.s. það eru ekki bara verkin þín, svo ertu líka frábær penni! Hnyttin og alvarleg í bland. Love it! Heiðarleg frá toppi til táar!

  17. Ása
    23.12.2016 at 15:46

    Gleðileg jól og farsælt nýtt ár (bæði í veru og bloggi :-)..

  18. Þorgerður
    23.12.2016 at 20:07

    Það er ekki öllum gefið að hlakka til jólanna, ég er ein af þeim. Þetta er ekki minn tími, fólki finnst ég ekki alveg í lagi, en ég get ekki að þessu gert. En mér finnst gaman að lesa skrifin þín, svo haltu áfram. Gleðileg ól.

  19. Ingibjörg
    23.12.2016 at 22:52

    Takk fyrir yndislegt blogg, vona að þù hættir ekki!! Les alltaf en kvitta aldrei, sorry :/ Gleðileg jól til þìn og þinna 🙂

  20. Ágústa Birgisd
    23.12.2016 at 23:00

    Gleðileg jól elsku Soffía og takk fyrir allt sem þú gerir fyrir okkur hin hér 😀

  21. Heiðdís Brandsdóttir
    23.12.2016 at 23:07

    Gleðileg jól og takk fyrir árið sem er að líða.

  22. Margrét Helga
    24.12.2016 at 10:16

    Elsku bestasta og yndislegasta Soffían mín <3
    Leiðinlegt að heyra að mamma þín hefur verið lasin, krossa putta og sendi henni og ykkur allar mínar bestu hugsanir og batakveðjur.
    Skil þessar hugsanir þínar vel, þessar um einu neikvæðu röddina sem drekkir öllum hinum milljón jákvæðu. Þetta er svona líka hjá mér og mörgum öðrum. Því miður er alltaf einhver sem verður að tjá sig um hvað allt er ómögulegt og illa gert og að viðkomandi myndi nú ekki gera þetta svona eða hinsegin. Það sem ég hef hins vegar vanið mig á að hugsa um er að þessari manneskju hlýtur að líða rosalega illa í eigin skinni til að finna hjá sér þörf fyrir að koma með neikvæða gagnrýni á aðra og láta öðrum líða illa. Annað sem ég hef lært að gera er að þegar þessar tilfinningar koma upp (særindi, leiði, kvíði, reiði, áhyggjur, sorg eða hvað sem er), er að leyfa þeim að koma og sætta sig við að svona er ástandið núna, mér líður á þessari stundu á ákveðinn hátt og það er bara allt í lagi. Leyfa tilfinningunni að koma, ekki ýta henni í burtu og hugsa að manni megi ekki líða svona, að manni eigi að líða öðruvísi, því annars held ég að tilfinningin og (van)líðanin sé alltaf til staðar og þetta fer ekkert í burtu fyrr en maður sættir sig við að stundum líði manni bara svona og það er bara allt í lagi. Vona að þú skiljir ruglið í mér…þetta hljómaði rosalega skiljanlegt í hausnum á mér en svo þegar ég les þetta yfir þá er þetta half óskiljanlegt 😉

    Gleðileg jól elsku Soffía og fjölskylda, hafið það sem allra best yfir hátíðarnar! Þú ert yndisleg í alla staði og gefur svo mikið af þér endalaust. Notaðu nú tímann um jólin til að slaka á og njóta. Við verðum hérna allar/öll á næsta ári þegar þú bloggar meira 🙂

    Knús í hús mín kæra!

  23. Kristín Hólm
    24.12.2016 at 12:07

    Sæl Soffía.
    Ég er tiltölulega nýbyrjuð að fylgjast með þessari dásamlegu síðu þinni; vissi bara ekki af henni fyrr en ég fann facebook síðuna þína. Ég er svo lánsöm að fá að kaupa æskuheimilið mitt af móður minni og systkinum og hef verið að laga það aðeins og bæta undanfarið Þú hefur gefið mér endalausar hugmyndir sem ég hef verið að máta við mig og mitt dót og nú er æskuheimilið smám saman að verða að mínu. Og ég er rétt að byrja og á eftir að lúslesa bloggið þitt eftir góðum hugmyndum.
    Jólin eru tími hefða og við viljum að jólin í ár verði eins og jólin í fyrra. Oftast gengur það upp en ekki alltaf og það getur verið erfitt að takast á við það. Jólin 2010 vantaði einn við matarborðið hjá okkar litlu fjölskyldu en pabbi minn dó nokkrum vikum áður. Það voru erfið jól en við lifðum þau af. Siðan þá hefur fjöldi matardiska á aðfangadagskvöldi verið síbreytilegur frá ári til árs Í fyrra vorum við til dæmis fimm sem borðuðum saman en í ár verðum við bara þrjú; við mamma og bróðir minn. Systir mín verður að vinna og sá fimmti afþakkaði boð um að borða og ætlar að vera annars staðar. Við þrjú ætlum að eiga dásamlegt aðfangadagskvöld saman og svo bætist systir mín í hópinn á annan.
    Gleðileg jól og takk fyrir að vera til fyrir okkur hin.

  24. Sigurlaug
    27.12.2016 at 21:40

    Les alltaf og „læka” oft. Hef í gegnum tíðina fengið ótal hugmyndir frá þér sem ég þakka innilega fyrir.
    Áfram þú!
    Gleðileg jól!

  25. Elín Guðrún
    17.12.2017 at 15:58

    Finst alveg geggjað að skoða bloggið hjá þér… langar að setja hérna inn það sem ég skrifaði á fb síðuna mína fyrsta í aðventu.
    Smà aðventuhugleiðing
    ……..Í dag er fyrsti í aðventu. Aðventan er eitt af upphhalds tímabili ársins hjá mér ….. jólin eru svo bara bónus þarna í endan……. Að bera út blöðin í svarta myrkri er æðislegt þega jólaljósin eru komin upp hjá fólki … tala nú ekki um er það er lifandi kerti í lukt við útidyrnar… hjá Stebba rakara ( þið sem þekkið hann ) var nammikrans með orðsendingu á þremur tungumálum til blaðbera og póstburðafólks að það mætti taka sér mola … Ég byrja að hlusta á jólalög um miðjan nóv.. Elska IKEA og allar búðir þar sem ég get skoðað jólavörur…. kaupi grýlukaffi á kaffihúsinu bollinn, rölti um og skoða..skoða öll blöð og síður með jóla einhverju. Tel niður til jóla þegar það eru 135 dagar ca til jóla…….. hahaha já samt er ég alltaf jafn hissa þegar þau koma…… Stundum hafa jólin verið þannig að ég átti ekki mikin pening og jafnvel verið að borga jólin fram í júli… pakkað síðasta pakkanum inn 17:45 á aðfangadagskvöld… í eitt skiptið var ég svo þreytt að ég skipti ekki á rúmunum fyrr en á jóladagsmorgun … þegar allt var orðið rólegt….. þannig að nú segi ég við allt fólkið mitt hérna inni (ef það er enn að lesa) nýtið aðventuna og njótið hennar…. bjóðið í matarboðið á einhverjum aðventusunnudeginum … ekki troða öllum veislum á jólin… Bakið smákökur með börnunum ykkar, stórum og smáum, farið svo með allt út í móa, takið kerti og kakó með…ef ykkur langar að bjóða einhverjum/ einhverri í jólamat farið í IKEA. Farið á tónleika t.d. með Eyþór Inga í kirkjum landsins, jólatónleika hjá kirkjukórum landsins ( mér finst eitthvað afskaplega rómó við það.. IKEA + Eyþór Ingi )
    Vona svo innilega að þið fjölskyldan eigið dásamleg jól. ..

    • Elín Guðrún
      17.12.2017 at 16:02

      ætti kannski að bæta því við að börnin mín eru mikil jólabörn þrátt fyrir að það var ekki allt … spikk og span hjá okkur… góðu minningarnar ná yfir alla erfiðleika.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *