…já þetta er afsökunarbeiðni!
Til hvers? Jú það skal ég segja ykkur, til Loga Bergmann. Ég hef aldrei hitt hann. Þekki ekkert til mannsins nema í gegnum sjónvarpsskjáinn. En hins vegar, fyrir nokkrum árum, þá komu Baggalútsmenn í settið hjá honum og ég hrósaði þeim á Facebook-síðunni þeirra. En ég var samt frekar leiðinleg sko, ég sagði að þeir hefðu verið jafn skemmtilegir og mér fannst Logi vera óskemmtilegur! Þetta var ferlega leiðinlegt af mér, og ég er ekki að grínast þegar ég segi ykkur að ég er búin að vera að hugsa um þetta af og til síðan þá. Mér fannst nefnilega ferlega leiðinlegt að hafa asnast til þess að segja eitthvað særandi um manninn sem ég þekki ekkert, og hann svaraði og “þakkaði fyrir” með kaldhæðni sem ég átti skilið. Ég vissi því að hann hafði lesið það sem skrifaði og það var nóg til þess að gera hnút í maganum sem hefur setið þar í nokkur ár.
Þannig að Logi, ég biðst innilega afsökunnar á að hafa verið svona mikil leiðindaskjóða. Fyrir að hafa hrósað öðrum og gert það á þinn kostnað. Fyrirgefðu.
En þetta var kannski ágætis lexía, því að ég hef reynt að gæta mín eins og hægt er að segja ekki ljótt um fólk á netinu síðan þá. Ég hef auðvitað haft skoðanir á stjórnmálum og þess háttar, en ég vona að ég hafi ekki verið að særa neinn og er ekki “virk í athugasemdum”.
Ég var nefnilega að ræða framkomu á netinu við dóttur mína núna um daginn, og hún var að segja mér upp og ofan frá spjalli sem kennarinn hennar átti við þau krakkana um að vera oft með neikvæða gagnrýni á það sem hinir eru að gera, og setja á netið. Ég sagði minni stúlku að svona væri þetta oft á þessu blessaða neti, og það væri ástæðan fyrir að krakkar þurfi að ná vissum aldri til þess að fá aðgang að ýmsu, svo sem Facebook og Snapchat. Ég benti henni líka á að framkoma fullorðinna á netinu væri þeim oft ekki til framdráttar – en þá sagði mín yndislega dóttir: “já en mamma, sumar fjölskyldur eru samt kannski til fyrirmyndar”. Ég gat ekki annað en brosað og sagði henni að svo væri víst ekki, það gera allir mistök og það eina sem við getum gert er að læra af þeim. Það var kannski hluti af því að ég ákvað að koma út úr “skápnum” og biðja hann Loga afsökunnar. Gera hreint hjá mér, því að ég hefði auðvitað aldrei sagt þetta við manninn í eigin persónu, og hví þá að gera það í gegnum tölvuna?
Það er líka kannski heila málið – hvers vegna að sýna af okkur hegðun í skjóli skjásins sem við myndum ekki sýna í raunheimum?
Mér finnst nefnilega oft að við lifum í þeim tíma að “heimur versnandi fer”. Þið vitið, spilling í stjórnmálum, Trump er forseti og allt það. Þetta er líka grasserandi inni á Facebook, þar sem fólk gerir sér stundum far um að kommenta við pósta og setja inn neikvæðar athugasemdir. Í stað þess að rúlla bara yfir póstinn og beint í þann næsta sem þér líkar.
Ef við setjum þetta í samband við raunheima, þá er þetta eins og maður sæi konu hinum megin við götuna – og myndi gera sér far um að hlaupa yfir götuna til þess eins að grípa í öxlina á henni og segja: “mikið er þetta ljót taska sem þú ert með”.
Hvaða máli skiptir það þig hvernig tösku þessi kona ber?
Hvers vegna þarftu að láta skoðun þína í ljós?
Skoðanir eru svoldið eins og rassar, við erum öll með þá, og þeir þjóna sínum tilgangi á réttum tíma og en það getur verið dónó, og óþarfi, að glenna þá framan í alla!
Svo er það annað að maður sér í raun vænsta fólk, breytast í einhvers konar nettröll. Þetta er ágætisfólk í raunheimum, en svo þegar það sest við tölvuna er eins og gáttir vítis opnist og út vessar alls konar illska og leiðindi. En það sem verra er, að þetta er oftast að flæða yfir nærstadda og “eitrar” umhverfið í kringum sig. Þegar maður sér meira segja heilu hópana sem gera út á það að láta svona. Um daginn var mér sýnd neikvæð umræða um SkreytumHús – þetta er eitthvað sem ég veit að á sér stað, og maður er farin að gera ráð fyrir x mörgum árásum – og tók þessari umræðu sem hverju öðru hundsbiti. En, og það er málið, en þá tók ég eftir að ein vinkona mín hafði like-að umræðuna, og þá fyrst stakk þetta mig verulega! Þetta er nefnilega fólk á bakvið þetta allt saman, og það er ofsalega erfitt að láta hlutina ekki koma við kauninn á sér þegar maður sér og þekkir fólkið sem um ræðir.
Nú er ég ekki að segja eða halda að fólk hafi ekki sínar skoðanir, en spurningin er einfaldlega þessi: þarf að koma þeim á framfæri við allt og alla?
Ertu að bæta eitthvað ástandið með þinni skoðun?
Eða ertu bara að koma þessu út í kosmós-ið til þess eins að eitra það?
Ef um er að ræða þín hjartans mál, kynþáttahatur eða annað slíkt – auðvitað segir þú þitt, en ef það um hvernig brók Stína er í – skiptir það máli?
Mér finnst í það minnsta kominn tíma á hugarfarsbreytingu og að hver og einn líti í eigin barm og byrji þar!
Sæl Soffía Dögg.
Mikið er ég sammála þér! Ég hef alltaf verið svo hrifin af blogginu þínu, ekki bara vegna allra hugmyndanna og fallegu myndanna, heldur ekki síður vegna jákvæðni þinnar og einlægni og fallegra orða. Það mættu fleiri taka það sér til fyrirmyndar. Ótrúlegt hvað margir leyfa sér í skjóli nafnleyndar á netinu!
Áfram þú!
Bestu kveðjur,
Þorbjörg Gunnarsdóttir
Flottur pistill….eitthvað sem allir þurfa að hafa í huga, alltaf, alls staðar! Það er eitt að koma með jákvæða og uppbyggilega gagnrýni og allt annað að vera með niðurrifsstarfsemi og særandi gagnrýni. Hvað veit maður til dæmis um manneskjuna sem setti upphaflega póstinn inn? Hún/hann gæti verið ofboðslega viðkvæm/ur fyrir, þannig að hún/hann má alls ekki við niðurrifsstarfseminni.
Og flott hjá þér að koma út úr skápnum og biðja Loga afsökunar…það er aldrei of seint 🙂
Knús í hús mín kæra <3
Ég vildi að ég gæti lækað tvisvar eða oftar! Ef maður hefur ekkert jákvætt að segja þá á maður einfaldlega að þegja!
Og ég er búin að nota upphrópunarmerki tvisvar í þessum stutta texta 😀😀
Kveðja Ragnhildur
P.s. takk fyrir stólana 😉
Vel orðað hjá þér vinan 🙂
Það þarf nú talsvert meira til að særa mig og ég man náttúrlega ekkert eftir þessu, en ég kann að meta þessa afsökunarbeiðni. Hún er skemmtileg!
Vel sagt, getum öll bætt okkur í framkomu á netinu
Þú hefur alla mina virðingu Soffia – það þarf kjark til að vera hreynskilin – viðurkenna mistök og biðjast fyrirhefningar!
Ég hef tamið mér að vera ekki að skipta mér af þvi sem mér kemur ekki við – þá lendi ég siður i vandræðum!🙏❤️
Og bara elska siðuna þina!😉👌Þú er æðisleg!😘
Flott hjá þér 💪🏻💪🏻 það er í lagi að gera mistök og kunna þá að bipja afsökunar og standa upp aftur 😘og Logi er svo flottur að taka hlutum með æðruleysi… mættu fleiri þora að vera í þeim sporum að geta beðið afsökunar.. það er mikip þroskamerki… ég er svo heppin að finnast þið bæði frabær og enn meir eftir þetta 😘😘gangi ykkur vel flotta fólk ❤❤
Dossa… þú ert dásemd.
Mikið finnst mér þú heilsteypt Soffía, og gott að geta sýslað aðeins um í þínum hugarheimi, hann er svo fallegur <3
Takk fyrir þetta. Maður þarf alltaf að passa sig. Enginn er breyskur! En!!! Það þarf heilsteypta manneskju með bein í nefinu til að standa upp, viðurkenna sín mistök, biðjast afsökunar á þeim og halda áfram!
Það að þú gerir þetta svona löngu eftir atburðinn sýnir að þú ert virkilega búin að burðast með þetta. Ég vona að Logi sjái þetta <3
Amen systa! Frábær grein í alla staði 💜
Gaman að lesa og skemmtilegar pælingar hjá þér 🙂
Já það er þetta með “Netið”..eins og flest annað ….þurfum við ekki öll að byrja hjá okkur sjálfum….ef við viljum breytingar…..góð skrif eins og ávallt hjá þér….njóttu dagsins….
Sæl Mér finnst alltaf gaman að lesa frá þér og margt hef ég hermt eftir þér. Góð skrif eins og alltaf hjá þér