- Um daginn svaraði ég nokkrum spurningum fyrir Fréttablaðið sem birtust síðan í sérblaði um heimilið, ég ákvað að birta hérna allar spurningarnar og svörin í heild sinni, svona ef einhver hefur áhuga á að skoða og lesa 🙂
- Hvað kom til að þú settir upp þennan vef, Skreytum hús?
Árið 2010 var ég í fæðingarorlofi með litla strákinn minn og þar sem ég var með sérlega vært barn, og vann á þeim tíma á vinnustað þar sem samstarfskonur mínar voru mjög svo áhugasamar um hvernig ég ætlaði að gera strákaherbergið, þá fór svo að ég tók að blogga um heimilið á Blogspot-síðu sem ég kallaði Skreytum Hús. Mjög fljótlega þá ukust heimsóknir og 2012 keypti ég síðan lénið sem ég er að blogga á enn í dag, sem er www.skreytumhus.is, og setti upp Like-síðu fyrir bloggið.
Svo ákvað ég að gera líka Facebookhóp undir sama nafni, svo að þeir sem lesa síðuna gæti skipst á skoðunum og deilt því sem þeir eru að gera, og leitað ráðlegginga. Þar að auki er SkreytumHús-söluhópur og SkreytumHús-garðsíðan.
- Er mikill áhugi á þessu efni?
Áhuginn á öllu sem tengist heimili eru mjög mikill. Það er stöðugt að bætast í hópinn og í dag eru meðlimir tæplega 22.000. Söluhópurinn telur líka um 13.000 og það er frábært að sjá framhaldslífið sem mublur og hlutir eru að fá þarna inni. Mér finnst líka gaman að sjá að það er alltaf að aukast í hóp herramanna á síðunni, en fyrst um sinn voru það aðallega konur sem sóttu þarna.
- Hvað er fólk helst að spyrja um?
Úfff, það er svo sannarlega farið um víðann völl. Allt frá nýjum eldhúsinnréttingum að skápalykt og allt bara milli himins og jarðar. Það er verið að biðja um ráðleggingar og svo er oft bara verið að sýna eitthvað nýtt sem er verið að brasa. Þetta er ótrúlega fjölbreytt, lifandi og skemmtilegt.
- Á hvað aldri er fólkið sem er duglegast að pósta?
Aldurbilið er mjög breytt, sumir eru að breyta heilum heimilum en aðrir bara herbergjum heima hjá foreldrum sínum. En ef við ættum að giska á aldur „meðalpóstarans“ ætli það sé ekki á milli 35-45. Svona algjörlega slumpað á meðalaldur.
- Er fólk að nýta gamalt eða meira spá í nýtt?
Myndi segja að það væri bara allur gangur þar á. Það eru mjög margir sem eru að endurnýja sínar mublur og gera þeim til góða. Enda er það frábært! Ég hef í þessi 5 ár verið mikið í því að reyna að endurnýta og gera gömlu til góða inni á blogginu, og það er algjörlega af hinum góða að „versla“ bara í geymslunni hjá sér og beita síðan spreybrúsanum eða málningarpenslinum.
- Hafa komið upp tískutrend á síðunni?
Trendin koma alltaf upp. Rétt eins og í öllum góðum saumaklúbbum, þá „mætir ein í nýju dressi“ og fleiri fylgja á eftir. Á tímabili var verið að mála rúður með AB mjólk (í stað þess að nota filmur á gluggana) og svo er mikið verið að filma húsgögn og innréttingar. En þetta er allt saman skemmtilegt, og það er alltaf þannig að ein góð hugmynd kveikir oft svo margar aðrar góðar hugmyndir hjá fleirum.
- Er fólk duglegt að pósta myndum, fyrir og eftir breytingar?
Fólki finnst gaman að sýna það sem það er bardúsa og það gefur mörgum innspýttingu í að gera eitthvað sjálft. Það eru margir sem eiga erfitt með að sjá fyrir sér hvernig hlutirnir koma til með að líta út eftir breytingu og sjá síðan eitthvað sniðugt sem að hvetur þau af stað, að þora að reyna sjálft.
- Hvað finnst þér skemmtilegast sem hefur komið upp?
Ég held að það skemmtilegast sé bara félagsskapurinn sem að myndast í kringum þetta. Í þessum risahópi af næstum 22þús manns hefur lítið sem ekkert komið upp af leiðindum eða skítköstum. Fólk er að koma vel fram sem er líka alveg nauðsynlegt, því að það er mjög persónulegt að setja inn myndir af heimili sínu og opna það fyrir „almenningi“.
- Hvaða hlutar íbúðarinnar er mest spurt um – eldhús-bað eða eitthvað annað?
Mér finnst þetta vera mjög breytilegt. Eldhús, stofur og barnaherbergi koma fyrst upp í hugann en þó er þetta öll flóran. Hópurinn er mjög lifandi og það er að koma inn fjöldinn allur af póstum á hverjum degi, þannig að allir ættu að finna eitthvað sem þeim þykir skemmtilegt að skoða þarna.
- Finnst þér vera uppsveifla í því að fólk sé að breyta, byggja eða bæta?
Tjaaa ef maður miðar bara við aukningu á fólki innan hópsins þá held ég að það hljóti að vera. Ég held bara að flestir vilji búa vel – og þá á ég við að búa þannig að þeim líði vel heima hjá sér og að heimilið sé að þjóna þeim. Það er mjög mikilvægt að breyta til eftir breyttum aðstæðum og sníða heimilið að þörfum fjölskyldunnar. Bæði í að breyta og bæta, og svo auðvitað líka bara að losa út það sem er ekki lengur í notkun.
- Finnur þú fyrir aukinni neysluvæðingu undanfarið í gegnum síðuna?
Ég er ekki viss um að það sé aukin neysluvæðing í gegnum síðuna, en við sem þjóð erum mjög fljót að segja að „allir“ eigi hitt og þetta. Auðvitað sér einhver hluti hjá næsta manni og langar að eignast eins. Það gerist þarna inni rétt eins og í raunheimum. En ég er nokk viss um að það er enginn sem er að kaupa eitthvað, bara til þess að kaupa það. Ég kýs í það minnsta að trúa því að fólk kaupi sér þá hluti sem að heilli það og því langar að eignast. Maður heyrir samt alltaf þessar gagnrýnisraddir, t.d. eins og á Omaggio-vasana og ég bara blæs á þetta. Ef þér, mér eða bara einhverjum langar í röndóttan vasa – sem er reyndar í fullkominni stærð fyrir litla vendi (þessi 20cm) þá sé ég bara ekki af hverju það ætti að koma illa við einhvern sem hefur ekki minnstan áhuga á þessum sama vasa.
Hugsanlega væri þetta hvimleitt ef allir færu að mæta með vasana í veislur! En þangað til þá finnst mér það bara hvers og eins að ákveða hvaða hluti þeim langar að setja inn á heimilið hjá sér. Ég er sjálf lítið að spá í hvaðan hluturinn er, eða „hverra manna hann er“ – er mér finnst eitthvað fallegt þá skiptir litlu málu hvort hann kemur úr Rúmfatalagerinum eða Epal. Ég veit að margir taka eflaust andköf, en svona er þetta bara.
Að skreyta og gera fallegt er bara svona súrefnið fyrir mig. Móttó mitt er bara: Skreyttu fyrir sjálfa þig, njóttu þess að stilla upp fallegu hlutunum þínum, myndum af börnunum þínum eða fjölskyldu. Ef þú ert með hluti sem þér finnast fallegir og eru einkennandi fyrir þig uppi við, þá hlýtur heimilið alltaf að verða staður sem þér líður vel á.
Ég væri alveg til í hvíta
Ója takk fyrir