8. desember…

…bara svo þið vitið það – þá er 8.desember og ég er ekki enn búin að skreyta!

Ég tel, án þess þó að geta sagt til um það með vissu, að ástæðan sé sú að ég er með eitt risastórt púsl í höndunum.  Púslið sem er skrautið mitt sko!

Ég er svo mikið að reyna að setja þetta þannig upp að ég setji ekki allt á sama stað.  Kannski er það bara að hluta til fyrir mig.  Annar vinkill á því er að ég er að gera þetta líka hér inni (opinberlega).  Vil samt ekki segja að ég sé að skreyta fyrir ykkur – þrátt fyrir að þið séuð alveg yndisleg sko.

En ég er meðvituð um að ég er með áhorfendur.  Það þýðir eflaust að ég set að hluta til meiri pressu á sjálfa mig að gera eitthvað nýtt, að gera eitthvað skemmtilegt.

En svo er það nú þannig, að maður er ekkert alltaf með alla anga úti og DIY-ar, jólaskreytir og ég veit ekki hvað og hvað.  Stundum er maður bara svona rétt að ná að gera það sem þarf að gera í desember – svo er það þessi spurning:
Hvað “þarf” að gera í desember?

www.skreytumhus.is6

Ég skoðaði t.d. svona samverustundadagatöl fyrir krakkana á netinu, allir að gera svoleiðis, og ég bara hreinlega lagði eiginlega ekki í það.  Það er kannski “ljótt” að segja en ég bara vildi ekki bæta á pressuna með einhverjum svona skyldu-samverustundum sem verða að vera.  Enn og aftur, þá vona ég að þetta skiljist – er ekki að setja út á þá sem er með þetta, miklu frekar tek ég hattin ofan fyrir þeim.

En hér er gaurinn að koma heim kl 16:30 úr leikskólanum, daman aðeins fyrr – en hún þarf líka að fara í fimleika og skáta og læra heima og….

Þau vilja líka opna dagatölin sín, Lego-dagatöl sem þeim langaði þvílíkt í og eru að hafa gaman af að opna saman og leika með, vilja horfa á Jóladagatalið í sjónvarpinu.  Svo þarf að elda og gera og græja, plús desember-aukahlutir.  Mér fannst eiginlega bara nóg um og ég vil frekar eyða gæðastundum með krökkunum sem verða til að sjálfu sér – ekki bara þegar við opnum miða og það stendur: “Málið piparkökur”.

Stundum eru þau þreytt, ég þreytt, húsbandið þreytt, og okkur langar bara ekkert að mála piparkökur.  Kannski er bara alveg eins gott að fleygja sér í sófann og kúra smá, eða bara leyfa þessu að gerast organískt.

www.skreytumhus.is.2015

Þetta var sem sé “tuð” dagsins – ef svo má kalla.  Meiri kannski svona stuna, yfir öllu þessu sem “þarf” að gera ef maður ætlar að vera góð mamma/eiginkona/ég sjálf.  Þetta getur verið svo flókið og við setjum stundum svo bilaða pressu á okkur sjálfar að það er mesta furða að maður kikni ekki undan þessu öllu.

Rétt eins og í gær, þegar stormurinn reið yfir, allt lokaði, allir áttu bara að vera heima.  En heimurinn hljóðnaði ekki – vindurinn lét hærra en nokkru sinni fyrr, og ég – ég fékk bullandi samviskubit yfir að vera ekki með heitt kakó og meððí eins og “uppskriftin” á veraldarvefnum sagði mér að gera.  Langaði mig í heitt kakó?

Alls ekki!  Allir gluggar lokaðir og heitt innandyra – heitir drykkir voru mér ekki efst í huga.

www.skreytumhus.is-0012

Ég veit ekki af hverju mér fannst ég þurfa að skrifa þetta.  Vildi kannski bara koma því frá mér að það er ekkert sem heitir að vera með allt á hreinu, nema bara Stuðmannamyndin.  Það er enginn sem er bara svífandi um að á skýji, búin að baka, skreyta og gera “allt”.  Það er alltaf eitthvað sem okkur finnst við þurfa að klára, redda og/eða gera betur!

Hættum að spyrja: “Ertu búin að öllu?”
Reynum að minnka pressuna á okkur sjálfar og hvor aðra.

 Mest þó á okkur sjálfar, þetta reddast!

Við bara verðum að trúa því!

 Jólin koma og þau verða yndisleg, þó að ekki sé búið að pússa alla glugga eða baka sortir.

Þau koma hvort sem að allt er “fullkomið” eða ekki, og þau verða, vonandi eins og venjulega – yndisleg ♥

♥knúsar♥

Þú gætir einnig haft áhuga á:

9 comments for “8. desember…

  1. Anna Sigga
    08.12.2015 at 08:16

    🙂 frábær póstur og þörf áminning. Við þurfum að læra að njóta og slappa af.

    Ég/við erum einmitt ekki með svona skipulagsaðventudagatal hérna … við gerum eitthvað spennandi saman þegar andinn kemur yfir okkur 🙂

    Það má vera kærulaus í desember eins og aðra mánuði 😉 Bara njóta líðandi stundar ef það er hægt 😉

    Eigðu góðan desember og njóttu ! Þarft ekkert að skreyta fyrir OKKUR … 😉

  2. Margrét
    08.12.2015 at 08:42

    Staðreyndin er nú bara sú að lang flestir skjólstæðingar sem leggjast inn á legudeild geðdeildar eru konur, eins og við. Sem ætla að gera allt og sigra heiminn og og og. Svo bara einn daginn slökknar á öllu og maður kemst ekki framúr. Góður pistill. Muna að passa vel uppá sjálfan sig, alveg eins og alla hina sem maður er alltaf að passa uppá í kringum sig.

  3. Margrét Helga
    08.12.2015 at 10:09

    Heyr heyr. Er heldur ekki búin að skreyta og þótt ég geri það nú ekki opinberlega eins og þú þá finn ég samt pínu pressu því einhverra hluta vegna er ég talin vera algjört jólabarn. Er hins vegar varla byrjuð að skreyta…
    Mig dauðlangaði líka að gera svona samverudagatal en hafði mig ekki í að framkvæma það…eins og með svo margt annað sem mig langar til að gera. Að mínu mati er um sé gera að njóta aðventunni án þess að vera með bilaðar kröfur á sjálfa sig…jólin koma hvort sem er og af hverju ekki bara að leyfa sér að slaka á og njóta? Ég held meira að segja að það verði pínulítið af jólaskapi eftir á jólunum sjálfum þetta árið hjá mér, venjulega er það búið löngu fyrir jól. Hættum að gera þessar kröfur til okkar, konur, og lærum að slaka á og njóta <3

  4. Helga
    08.12.2015 at 17:15

    “There are no perfect parents and there are no perfect children but there are plenty of perfect moments along the way.”
    Svona hljómar nokkurn veginn þetta gullkorn sem mér finnst svo yndislegt og satt. Svo gerum bara það sem við getum og viljum og búum þannig til fullkomnu augnablikin þó svo við sjálf séum ekki fullkomin 🙂

  5. Elsa Kristin
    08.12.2015 at 19:21

    Góð skrif rétt eins og þú hafir skrifað hann sem áminningu spes til mín 😉

    Fann einmitt nákvæmlega þessu pressu um helgina og ekki síður í gærkvöldi. Fannst eins og ALLIR nema ég væru búnir að ÖLLU!! Skreyta, versla, pakka, föndra, jólakortast, þrífa, baka og hvað allt það er nú sem maður Á helst að vera búin að gera 😉
    Og ég jólabarnið sjálft á svooo mikið eftir !!
    EN satt segiru; Þetta reddast og það bara í rólegheitunum 😉
    Um að gera að njóta augnabliksins, vera til staðar og gera hlutina þegar viljinn og andinn fylgir <3
    Eigðu dásemdar aðventu og gerðu hlutina aðeins fyrir þig og þína þó við séum jú svo heppin að fá að njóta með svona til hliðar <3

  6. Fanný
    08.12.2015 at 19:23

    Ég gerði svona samverudagatal í fyrra og það var algjört flopp! Við hjónin bæði í vaktavinnu og oft vorum við eða börnin ekki í stuði fyrir það sem ,,átti” að gera þann daginn. Þetta eiginlega bara jók á álagið. Spurði börnin í ár hvernig dagatal þau vildu og sonurinn sagðist alls ekki vilja svona eins og í fyrra. ,,Við gerum hvort eð er eiginlega allt sem dagatalið sagði okkur”. Í ár voru piparkökurnar t.d. bakaðar og málaðar um miðjan nóvember, því það hentaði þá og við vorum í bústað. Annað sem var á dagatalinu höfum við svo yfirleitt gert hvort eð er,en þá bara þegar okkur langar.

  7. Arna Ósk
    09.12.2015 at 10:56

    Góð skrif. Tengdamamma spyr mig á hverju ári hvort ég sé búin að öllu fyrir jólin. Skil ekki hvernig hún nennir að spyrja því aumingja konan fær alltaf sama svarið og sama svipinn: “Ef ég geri ekki meira, þá er ég búin en ef ég geri eitthvað meira þá var ég greinilega ekki búin”. 😉

  8. Kristín S
    10.12.2015 at 21:20

    Ég er með svona dagatal fyrir drenginn minn, en í því felst “bara” samvera í ca 3-4 skipti. Hina daga skrifa ég hrós eða eitthvað uppbyggilegt til hans. Við erum búin að gera þetta í fimm ár núna og hann bíður eftir þessu og í ár var ég ekki búin að setja miðana í 30.nóv þegar að hann fór að sofa og hann ætlaði aldrei að geta sofnað, hann hafði svo miklar áhyggjur af því að þetta yrði ekki klárt 1. des 😉

    þannig að þetta þarf ekki bara að snúast um að gera eitthvað saman, heldur líka minna börnin okkar á (í jólastressinu) hvað þau eru yndisleg og hvað þau eru að standa sig vel 🙂

    kveðja
    Kristín S

    • Soffia - Skreytum Hús...
      10.12.2015 at 23:27

      Æji það hljómar yndislega – falleg venja hjá ykkur 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *