…og verum kyrr!
Stoppum aðeins og horfum í kringum okkur.
Stoppum aðeins og slökkvum á símunum.
Þegar við fórum í ferðalagið okkar um landið þá stoppuðum við á tjaldstæðinu á Hvammstanga. Þetta er ekki í fyrsta sinn, og ekki í það seinasta sem við æjum þarna. En það sem heillar mann mest við þetta tjaldstæði, er kirkjan og allt umhverfið í kringum hana.
Við vorum reyndar í ferlega köldu veðri þarna, og miklu roki. En eitt kvöldið – allt í einu – þá birtist sólin og vindinn lægði.
Þetta var rétt fyrir miðnætti og það var eins og hún kæmi bara við, svona rétt til þess að kyssa okkur góða nótt.
Krakkarnir voru komnir í ból, og ég fékk mér smá göngutúr og naut þess að finna fyrir birtunni og horfa í kringum mig.
Ég er ein af þessum sem að finn ró þegar ég geng um kirkjugarða. Það er eitthvað svo skrítið, og heillandi, að hugsa um líf þessa fólks sem þarna hvílir bein sín. Hvernig það lifði, og hvernig það dó. Það er í það minnsta þess virði að leiða hugann að því.
Kirkjan er líka sérlega falleg og yndisleg.
Gömul og lætur ekki mikið yfir sér, svona ekta falleg sveitakirkja.
Finnst síðan alltaf smá sorglegt að sjá svona, þegar að fólk hefur greinilega lagt mikið í að gera fínt leiðið – en svo fer tíminn sínu fram. Aðstandendur falla frá og leiðið hverfur í gleymskunnar dá.
En þetta er samt ennþá fallegt.
Mér finnst reyndar merkilegt í þessum garði, að ef þið horfið aftan við kirkjuna – alveg þétt við hana – þá stendur þar kross.
Þar sem hvíla sæmdarhjónin frá Syðstahvammi.
En mér leikur forvitni að vita hvers vegna krossinn og leiðið standa svona nærri kirkjunni.
Sömu sögu má segja framan við kirkjuna – en þar hvílir merkisbóndi einn og kona hans.
Óvenjulegt að sjá þetta svona beint framan við tröppurnar og svo þétt upp við. Þetta hefur greinilega verið fyrirfólk í sveitinni og verið að sýna þeim virðingu með þessu – eða svo held ég. En ef einhver þekkir útskýringu á þessu þá þætti mér gaman að heyra hana.
Hér er líka smá um kirkjuna, fyrir ykkur sem viljið sjá meira.
Óvenjulegur póstur, ég veit – en næsti póstur – ætti að verða dásemdar innlit í Sirku á Akureyri!
ps. þætti vænt um að þið mynduð smella á like-hnappinn ef þið höfðuð gaman af póstinum!
Virkilega fallegur póstur og myndir (“,)
Líka gaman af svona öðruvísi póstum og alltaf gaman af fallegum myndum 🙂
Yndislegur rólegheitapóstur…gaman að lesa og skoða myndir. Maður gerir þetta allt of sjaldan, að bara njóta…