…þetta gerðist snöggt, og í raun frekar óvænt!
Frænka mín elskuleg flutti fyrir einhverju síðan í íbúð og baðherbergið var frekar þreytt – eins og gengur og gerist. Við systurnar ákváðum að reyna að aðstoða hana og gera baðherbergið boðlegt fyrir dömu 😉 og, þar sem elskulegt húsbandið mitt var í “nauðungarfríi” (þurfti að klára sumarfrí sem var að brenna inni) þá samþykkti hann af einskærri hjartagæsku og almennilegheitum að koma með í þetta og vera okkar einka-, málari, kýttari, borari, skrúfari og raftengiliður í þessu öllu. Í stuttu máli, hann reddaði okkur alveg og stóð sveittur í 2 daga í alltof litlu baðherbergi – eins og krabbi í of litlum kuðungi 🙂
Kallgreyjið! Þetta ætti að kenna honum að bjóða mér bara til útlanda á næsta ári, í staðinn fyrir að vera bara í svona “fríi” 😀
En yfir í mál málanna, baðherbergið!
Markmiðið: gera baðherbergið huggulegra, þægilegra og fallegra – án þess að sprengja bankann. Ekki fara í stærri aðgerðir, eins og að skipta um gólfefni (sem var þó freistandi og á döfinni) og ekki skipta út hinu “klassíska” beislitaða baðkari. En, allt hitt, mátti í raun fara!
Eins og sést þá var nánast ekkert þarna inni. Smá hreingerningavörur á víð og dreif, sökum komandi aðgerða! og svona líka huggó gulur ofn!
…það hafði verið kýttað með brúnu kýtti meðfram baðinu, sem að gerði það að verkum að þetta virkaði skítugt, bara vegna litarins…
…farið að flagna og þreytast…
…og eins og þið sjáið þá öskruðu veggirnar alveg á málningu, greyjin!
…alls konar hlutir í reiðuleysi…
…og vantaði tilfinnanlega geymslurými…
…ég lagði því hausinn í bleyti og sameinaði krafta sænska kærastans (Ikea) og færeyska viðhaldsins (Rúmfó) og yndislega “vinnuþrælsins” (húsbandið).
Í Ikea fann ég einmitt það sem ég leitaði að, innréttingu sem ég er búin að vera með augastað á lengi, og pikkaði upp smá fylgihluti…
…hjá þeim færeyska fann ég körfur, handklæði, taupoka, sturtuhengi og skrautmuni…
…nú fyrst að ég var orðin þetta fjölþreifin á annað borð – þá for ég í Bauhaus og keypti loftljós, veggljós, handklæðaslá og wc-haldara. Svo var það auðvitað krúttið hann Garðar í Slippfélaginu, ég kynnti hann og húsbandið og við keyptum málningu á veggi, hurð og flísar. Sparsl og sandpappír og þá vorum við reddí. Eftir umrædda vinnuþrælkun á húsbandinu var útkoman þessi!
Hreinlegt og fallegt baðherbergi, þar sem að allt á sinn stað og þægilegt er að þrífa…
…pláss fyrir innréttingu var sama og ekkert þannig að þessi opna og létta lausn frá Ikea var alger snilld…
…og er líka létt að sjá þannig að herbergið virkar ekki of stappað af dóti…
…það er slá framan á, sem hægt væri að setja blúndu eða eitthvað fallegt efni á, en ég setti bara handklæðin þarna. Skemmtileg leið til þess að breyta auðveldlega út…
…og þetta felur wc-pappírinn og annað sem er ekkert skemmtilegt að horfa á. Karfan passaði ekki alveg þarna undir, út af vaskalögnum, en ég lét þær bara fara ofan í körfuna og raðaði pappír í kring…
…sturtuhengið er sérstaklega fallegt og létt, en samt svona karakter í því – big like…
…þessi kom frá Bauhaus og er náttúrulega alveg nauðsynlegt að vera með hillu fyrir baðdótið…
…handklæðasláin úr Baushaus, og snilld að hafa hana yfir ofninum, og þá verða handklæðin hlý og notaleg þegar að maður kemur úr baði…
…veggirnir voru málaðir í fööööööölgráum lit, s1002r frá Slippfélaginu, svona til þess að fá smá meiri hlýleika og karakter – vildi alls ekki hafa alveg hvítt. Speglarnir eru úr Litlu Búðinni minni…
…frænkan átti þessar Iittala skálar bara í geymslu í skápnum sínum, og þær smellpössuðu inn í litaþemað. Gaman að geyma í þeim svona gamla kuðunga og ígulker…
…Körfurnar eru síðan með alls konar brúsa og svoleiðis vesen…
…á bakvið hurðina settum við snaga, svo hægt væri að setja náttslopp þar – nú eða hengja af sér föt – og hjartað sér til þess að snaginn er ekki tómlegur þegar að ekkert hangir á…
…snaginn er úr Ikea og hjartað frá Rúmfó…
…ég elska að nota svona bling-ljós í baðherbergi. Það gerir svo ótrúlega mikið…
…og ho my god hvað þessi voru fín og fögur…
…í glugganum eru svo bara blóm og kanna og skál sem frænkan átti fyrir…
…loftið var málað arkitektahvítt, til þess að ná því mjög björtu og hvítu, við máluðum það fyrst og smá niður á vegg. Þegar þetta var þornað settum við yfir málningarteip til þess að fá röndina sem þið sjáið þarna efst…
…handklæðin voru bara hvít og grá – klassísk og fara aldrei úr tísku. Með því voru síðan settir nokkrir þvottapokar og gestahandklæði í fallegum litum…
…auðvelt að skipta því út og breyta um litatóni á einfaldan hátt…
…spegilinn var til fyrir, en er úr Rúmfó…
…í gluggann setti ég síðan vegglímmiða úr Söstrene, bara svona til þess að fá meiri prívat og líka bara upp á fegurð 🙂
…nauðsynjahlutir, sem eru snyrtilegir og koma fínt út…
…þessi litur er náttúrulega bara dásemd…
…snyrtiboxið/bjútíboxið átti hún fyrir, og það er kjörið til þess að geyma eitt og annað sem ekki þarf að nota daglega…
…uglupokinn frá Rúmfó gleypir við óhreinum þvotti, og svo er hann handhægur til þess að hlaupa með í þvottahúsið…
…við notuðum bara gardínuvír úr Ikea í stað þess að nota þrýstistöng, og það er mikið léttara yfir henni. Að vísu er ekki alveg víst hvernig hún verður í tímans tönn, enda ekki ætluð fyrir votrými, en við ákváðum að taka sénsinn. Enda bara ein manneskja sem býr þarna og því ekki mikill ágangur…
…huggó!
…keyptum tvö eins sturtuhengi svo hægt væri að draga alla leið…
…það er líka æðisleg birtan sem kemur þegar að loftljósið er slökkt…
…þá koma ótrúlega fallegir skuggar og mynstur, og kósý birta…
…og þannig fór það!
Ég held að með málningu og öllu sem við keyptum hafi kostnaðurinn verið á milli 50-60þús. Í fullkomnum heimi hefði gólfefnum verið skipt út og þess háttar, en í það minnsta er frænkan komin með huggó baðherbergi sem hún getur látið sér líða vel í – og þá er tilganginum náð! ❤
Síðan svona að lokum, því að það er alltaf gaman að sjá hlið við hlið – þá koma hér fyrir og eftir!
Þess ber líka að geta, að ég er að taka að mér svona verkefni – ef einhver er að spá – og velkomið er að senda mér tölvupóst á: soffiadogg@yahoo.com eða bara skilaboð á Facebook 🙂
ps. þætti vænt um að þið mynduð smella á like-hnappinn ef þið höfðuð gaman af póstinum!
Ótrúlega flott breyting og notalegt baðherbergi. Væri til í sjá meira af svona 🙂
Soffía Dögg , Vá hvað þetta er glæsilegt hjá ykkur. Vel gert 🙂 Bestu þakkir fyrir að deila þessu og segja vel og skemmtilega frá. 🙂
Vá!!! Þvílíkur munur!! Frænkan heppin að eiga ykkur systurnar að, að ekki sé talað um húsbandið þitt 😉 Gott að allir mennirnir í lífi þínu eru búnir að hittast og kynnast (vinnuþrællinn, viðhaldið, kærastinn og Garðar), vonandi líkar þeim öllum vel hvorum við annan :p
Hef sagt það áður og segi það enn, þú ert frábær penni mín kæra og það er yndislegt að lesa póstana þína 😀
P.S. Gæti maður fengið litanúmerið á föööööööööölgráu málningunni?? 😉
Soffía systir mín…
þið eruð yndi- hjónakornin á nesinu:*
Þakka ykkur fyrir hjálpina.
Þetta var góðverk vorsins- fínt og fallegt eins og allt sem þú og Valdi gerið.
Gott karma skilar sér.
Takk fyrir allt og alla hjálpina.
Guðrun systir.
Rosalega fallegt! Þvílíkur munur!
Þetta er ótrúlega flott, mikil breyting fyrir ekki svo mikinn aur.
Ég er ein af þeim sem hef fylgst með blogginu þínu leeeengi, örugglega 1 og 1/2 ár og hef alltaf jafn gaman ađ.
Ótrúlega flottar breytingar á þessu baðherbergi sem þið gerðuð 🙂 Er einmitt með svona uglupoka á baðherberginu mínu hér í Kanada, geymi klósettrúllurnar í honum 🙂
magnaðar breytingar ! Gaman að sjá þetta svona hlið við hlið myndirnar þá sér maður þetta betur 🙂
Elska að sjá svona breitingar sérstaklega þær sem kosta svona lítið.
Finnst einmitt vanta meira af svona pælingum í Hús og Hýbíli blöðin svona eithvað sem fólk getur og hefur efni á að gera og fá hugmundirnar.
Hlakka til að sjá meira af svona pælingum hjá þér (það er að segja ef þú deilir verkefnunum sem þú færð með okkur)
Ekkert smá flott og gaman að sjá!
Vá hvað þetta er æðisleg breyting, elska að sjá svona snilldarlausnir sem þú virðist hafa á öllum hlutum.
Fæ þig í lið með mér þegar ég fer í stóra marmarabaðherbergið 🙂
Rosa flott breyting fyrir lítið. Snilld hugmyndin með handklæðaslána yfir ofninum, bæði praktísk og gerir ofninn minna áberandi um leið.
Glæsilegt!
Þú ert algjör snillingur!! 🙂
Mikið var gaman að sjá þessa frábæru breytingu á baðinu, það er ýmislegt hægt að gera. Þetta er glæsilega gert hjá þér og mjög smekklegt. 🙂
Virkilega gaman að sjá svona flottar breytingar og sérstaklega þær sem fólk hefur efni á.
Vá hvað þetta er flott og mikil breyting 😉
Æðislega flott. Veistu hvar er hægt að finna eitthvað í líkingu við uglu pokann/körfuna núna?
Takktakk, það eru alls konar flottir pokar til í Rúmfó.
Glæsilegt baðherbergi! Mætti ég spyrja hvar þú fékkst vírinn fyrir sturtuhengið? Svo mun lekkerara en þessi hefðbundna slá!
Vírarnir eru úr Ikea og í raun fyrir gardýnur, þannig að ég þori ekki að lofa að þeir ryðgi ekkert með tímanum. Þar býr bara ein manneskja og það er ekki það mikil umgegni að við ákváðum að taka sénsinn 🙂
Vá vá vá… meiriháttar breyting og gaman að sjá að það kostar ekkert handlegg og fótlegg að breyta.