…í dag ertu orðin 9 ára!
Ótrúlegt en satt…
…litla óskabarnið okkar sem við biðum svo lengi eftir en vissum samt alltaf að ætti eftir að koma.
Litla manneskjan með stóru augun sín sem starði svo alvörugefin á heiminn og velti þessu öllu fyrir sér.
Við getum seint þakkað þá gæfu að hafa fengið þig inn í lífið okkar, og þetta hlutverk, að verða mamma þín og bróður þíns, það mun alltaf verða merkilegasta hlutverk lífs míns.
Ég óska þér svo margs, en mest af öllu óska ég þér gleði, gæfu og gæsku.
Ég hef svo mikla trú á að það sem þú gefur frá þér muni margfalt skila sér til baka og þar er fátt sem getur komið í staðinn fyrir manngæsku og gleði.
Bros getur miklu breytt og faðmlag enn meira.
Þakka þér fyrir að hætta þér niður af skýjinu, þar sem þú sast með Guði, og velja okkur fyrir foreldra.
Takk fyrir að vera mín ♥
Það er svo skrítið, eins hratt og tíminn flýgur áfram að manni finnst eins og hvert einasta aldursskeið með barninu manns, sé það skemmtilegasta sem maður hefur upplifað. Það að sjá barnið sitt vera að vaxa og þroskast, að taka ákvarðanir og standa með sjálfu sér, það eru svo mikil forréttindi.
Ég vildi samt óska að ég gæti tekið hverja stund, hverja mínútu upp og þegar ég verð orðin gömul og grá, þá gæti ég sest niður og spilað þetta allt saman aftur. Alla dagana sem var hlegið og dansað, og líka alla dagana sem mamman stundi þreytt og hlakkaði til að allir væru komnir í ró.
Ég er viss um að þegar börnin verða fullorðin, og ég þar af leiðiandi enn fullorðnari, að þá sé það einmitt hversdagsleikinn sem maður á eftir að sakna sem mest.
En tíminn flýgur og maður getur bara gert sitt besta, gert það sem hægt er til þess að veita barninu allt hið besta. Og þá á ég helst við í formi tíma, knúsa og minninga – en ekki endilega leikfanga eða þess háttar.
Ég verð ávalt afskaplega meyr þegar það kemur að börnunum mínum. Ég held að ég eigi enn erfitt með að trúa að mér hafi hlotnast þessi gæfa í lífinu. En það er víst engum manni óholt að verða dulítið meyr og fella tár, ég held að það komi ekki að sök.
Biðst forláts á væmnispósti – en stundum þarf maður bara að hella og sletta sýrópinu sem í hjarta manns býr.
Sér í lagi á svona stundum, þegar að maður getur verið þakklátur fyrir slíkar guðsgjafir ♥
Yndislegt, til hamingju með fallegu dótturina með djúpu augun sín 🙂
Mikið er þetta fallegt og einlægt Soffía, til hamingju með skottuna ykkar öllsömul.
Kv. úr Hafnarfirði.
Til hamingju með fallegu dótturina og takk fyrir alla yndislegu póstana þína sem ég les alltaf
Til hamingju með dömuna ; )
Yndislegur póstur og það er alveg nauðsynlegt að vera væmin líka.
Til hamingju með þessa dásemd <3
Til hamingju öll 🙂 Þá má alveg vera meyr og stoltur,þegar börnin eiga í hlut.Þau eru jú gullin okkar 😉
Ofsalega fallegt hjá þér Soffía 🙂 Hún er líka augljóslega heppin að eiga þig sem móður.
Innilega til hamingju með stelpuna þína
Innilega til hamingju með flottu afmælisstúlkuna ykkar! Maður má sko alveg vera væminn þegar maður hugsar og talar um börnin sín 🙂 Þau eru eftir allt, það besta og frábærasta sem maður á! Njótið dagsins mín kæru!
Til hamingju með afmælisstúlkuna. Þú skilar kveðju frá mér til hennar.
Elsku Soffía og ektemann til hamingju með fallegu prinsessuna 😉
bjarta framtíð 🙂
kv AS
Kæra Soffía . Yndileg stúlkan þín ! Og yndisleg orðin þín þegar þú talar um hana ! Börnin okkar eru vissulega Guðs-gjöf og gleðigjafar og yndislegt að fá að upplifa að eignast börn/annast þau í blíðu og stríðu. Til hamingju með þessa yndislegu stúlku og góðar óskir til ykkar. Með hlýju og kærum kveðjum Inga Kr.
Yndisleg eins og mamma sín – Til hamingju með skottuna ykkar 🙂