Byrjar að skreyta um leið og kólnar í veðri
Myndir – mbl.is: Þórður Arnar Þórðarson
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn heima?
Ég held að það sé bara heimilið í heild sinni. Ég er afskaplega heimakær og líður hvergi betur. Mér finnst ég hreinlega fá orku frá heimilinu mínu og legg mikið upp úr því að hafa það fallegt og þægilegt.
Hver er þín uppáhalds verslun?
Í uppáhaldi hjá mér er að fara rúntinn. Þá er kíkt í Góða Hirðinn og á svoleiðis staði. Því næst Litlu Garðbúðina uppi á Höfðabakka og svo í Rúmfatalagerinná Korputorgi. Síðan er klassískt að kíkja á „sænska kærastann”- Ikea. Síðan er Púkó & Smart náttúrulega dásamleg.
Hver er uppáhalds hluturinn þinn?
Það er erfitt að nefna eitthvað eitt. Málverkin eru eftir hann pabba, Garðar Jökulsson, eru mér mjög kær. Og ljósmyndir af börnunum eru náttúrulega fjársjóður okkar hjónanna.
Áttu þér uppáhalds húsgagn?
Sófinn er nýmættur á svæðið frá sænska kærastanum, hann er náttúrulega ofarlega á lista. Síðan er ég mjög stolt af hillunni sem er í stofunni, við hjónin bjuggum hana til úr litlum Ikea hillum og timbri.
Hvenær skreytir þú fyrir jólin?
Ég er algjört jólabarn. Ég elska að skreyta og á sennilega meira jólaskraut en leyfilegt er. Ég brá því á það ráð að „vetrarskreyta“. Það þýðir að um leið og fer að hausta og kólna þá fer ég að draga fram köngla, hreindýr og annað slíkt sem minnir á veturinn. Svo dreg ég fram fleiri púða, kerti og annað notalegt. Eftir afmæli eiginmannsins, sem er um miðjan nóvember, fær svo jólaskrautið að koma upp…en ekki allt í einu.
Hvaðan kemur jólaskrautið þitt?
Jólaskrautið kemur héðan og þaðan. Ég elska að nota, eins og áður sagði, köngla og greini og aðra hluti úr náttúrunni. Ég er mest með hvíta og náttúrulega liti í bland, það er ofsalega lítið af rauðu á mínum bæ. Ég er líka hrifin af stjörnum og trjám og stenst varla slíkt skraut.
Áttu þér uppáhalds jólaskraut?
Það er lítil kirkja með ljósi og spiladós sem ég fékk þegar ég var lítil frá móðursystur minni. Síðan er ég með eldgamalt jólatré sem var heima hjá ömmu minni og afa í kringum 1940, mér þykir ofsalega vænt um það. Svo er ekki annað hægt en að elska allt þetta dásemdar skraut sem krakkarnir mínir hafa búið til í gegnum árin.
Bakar þú fyrir jólin?
Ég hef oftast bakað súkkulaðibitakökur og lakkrístoppa. Eiginmaðurinn hefur síðan gert mömmukökurnar. Í ár hefur ekkert verið gert en við erum búin að ákveða að jólin koma þrátt fyrir það. Við kaupum bara meira Nóa-konfekt og tilbúnar smákökur.
Ekta eða gervijólatré?
Ekta gervijólatré frá Skátunum hefur þjónað okkur ötullega undanfarin ár og stendur alltaf undir væntingum.
Hvernig er drauma heimilið þitt?
Draumaheimilið samanstendur af hinu og þessu sem mann langar í. Það eru t.d. franskar hurðar sem opnast út á pall sem er umluktur slútandi trjágreinum, risastórt fataherbergi, vinnustofa fyrir mig, stigi með dásamlegu handriði til þess að skreyta. Miðað við umhverfið er þetta hús ekki á Íslandi, en þetta er líka bara draumur.
Hvaðan færð þú innblástur?
Innblásturinn getur komið úr öllum áttum. Stundum úr bókum, af netinu eða bara úr umhverfinu. Oft þarf ég bara að sjá einhvern einn hlut og er þá skyndilega búin að hanna í hausnum á mér heilt herbergi.
Áttu einhver ómissandi húsráð?
Ég held að ég búi ekki yfir neinum töfralausnum. Hins vegar er ég viss um að hver sá sem býr sér til heimili sem honum finnst fallegt og er stoltur af kemur til með að ganga betur um heimilið sitt. Svo er náttúrulega kjörið að fylgjast með Skreytum Hús, þar er að finna alls konar góðar hugmyndir og ráð.
Gerist ekki krúttlegra
Jólatréið er skreytt með persónulegu skrauti.
Myndir: Þórður Arnar Þórðarson
Flott viðtal 🙂 Var búin að sjá það á mbl.is þegar það kom þar. Finnst pínu fyndið að það kemur næstum því út í myndatextanum undir jólatrénu í dömuherberginu, eins og þetta sé ykkar aðal jólatré. Það myndi reyndar sóma sér vel sem slíkt enda fallegt tré og fallega skreytt!
Held að það sé óhætt að segja að þú sért orðin heimsfræg á Íslandi, a.m.k.! Mögulega víðar eftir Apartment therapy valið 🙂 Kíp öpp ðe gúdd vörk!!